17.04.2008 23:29

Veðurfræðingarnir.

    Gömlum kunningja mínum (blessuð sé minning hans) leið alltaf hálfilla þegar gerði góða tíð. Honum varð tíðrætt um að okkur myndi nú hefnast fyrir þetta, hvað skyldi þetta nú kosta okkur o.sv.frv.?. Lengi vel maldaði ég í móinn taldi veðurkerfin ekki sett upp með þetta í huga og færði fram ótal skynsamleg rök gegn þessum fullyrðingum en allt kom fyrir ekki. Þá breytti ég um stíl og fór að hafa miklar áhyggjur. Færði þær jafnvel í tal að fyrra bragði og var uppfullur af bölsýni ef ég hitti kunningjann og það var eindreginn þurrkur á heyskapartíma, eða bara bongóblíða svona óverðskuldað.
 Þá gerðist það að því formyrkvaðri sem ég var af áhyggjum yfir þessu óverðskuldaða tíðarfari þá reyndi kunninginn að slá á mestu áhyggjurnar hjá mér. Þetta yrði nú kannski ekki svo slæmt og óþarfi að hafa áhyggjur svona fyrirfram og honum tókst nú oftast að róa mig niður og við gátum farið að tala illa um náungann eða fara í eitthvað enn skemmtilegra umræðuefni. Nú velti ég því fyrir mér hvernig stóð á því að ekki var glaðst yfir vondu veðurköflunum sem hlytu samkvæmt þessari kenningu að leiða af sér góðviðriskafla sem væntanlega yrðu því lengri og betri sem veðrið hefði verið leiðinlegra.Það er ekki í fyrsta skipti sem góðu rökin uppgötvast ekki fyrr en umræðunni er lokið. Nú held ég að sé rétt að taka upp trú á þetta veðurkerfi kunningjans  með áorðnum breytingum og velta því fyrir sér hversu lengi þessi góðviðriskafli verður.
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere