16.04.2008 23:22

Stokkendurnar og homo sapiens.

        Það var stafalogn í morgunsárið og tjörnin alveg spegilslétt. Án þess að ég ætli nokkuð að kvarta yfir veðurfarinu hér, er nokkuð ljóst að ekki væri haft orð á þessu ef þetta væri daglegur viðburður.
        Stokkandahjónin létu aðeins heyra í sér þegar hundarnir mínir, og annarra marseruðu út en hreyfðu sig ekki, trúlega til að leyfa mér að njóta þess að sjá tjörnina í þessu sjaldséða ástandi. Það er um hálfur mánuður síðan stokkandarparið birtist á tjörninni. Þau koma í birtuskilunum á kvöldin , stundum seinna og þegar ég er að telja störnurnar , heyrist  kannski vængjaþyturinn þegar þau renna annars hljóðlaust á náttstaðinn. Þau hafa síðan  yfirgefið svæðið þegar ég kem inn í morgunkaffið. Trúlega dóla þau til hans Einars að hirða upp korn frá liðnu hausti en hann nýtur gríðarlegra vinsælda hjá fiðurfénaðinum þessa vordaga..
 Þegar kemur að varpi láta þau sig hverfa, vita að það er engu að treysta þegar mannskepnan er annarsvegar og ekki eru hundaófétin á bænum traustvekjandi. Assa langverst,  en hún getur verið að sulla í tjörninni allan daginn ef því er að skipta. (Húsmóðirin verður alltaf jafn ánægð þegar Assa skýst svo inn í þvottahús öðru hvoru til að hrista sig.) Ég gleymi hinsvegar seint deginum fyrir mörgum árum þegar ég var að slá á fullu og sláttuvélin lenti á andarhreiðri með kollunni og eggjunum. Trúlega kollunni minni af tjörninni. Ég hef reyndar velt því fyrir mér seinna, hversvegna margreyndur dráparinn tók þetta svona nærri sér. Nokkrum dögum áður hafði ég t.d.gjöreytt  refafjölskyldu án þess að það héldi fyrir mér vöku. Þetta lýsir trúlega tvöfeldninni í homo sapiens.
 Hvað um það, nú eru veðurguðirnir ósparir á blíðviðrin, aðalhaughúsið tæmt og langtímaspáin uppfyllir gjörsamlega allar kröfur undirritaðs.
 
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere