29.12.2007 23:08

Bókhaldið!!!


  Það er orðið ansi langt síðan maður hefur komist í að moka snjó  frá húsum og af bílastæðum en talsverður tími fór í það í dag.Yngri bóndinn var allan daginn að selja flugelda og síðan að sjá um flugeldasýningu í Staðarsveit með félögum sínum í kvöld.
 Nú fer í hönd sá árstími sem reynir verulega á hjónaband undirritaðs og hans heittelskuðu.Hún heldur utanum bókhald búsins af miklum myndarskap og fyrir margt löngu meðan búið var rekið á kennitölunni minni (að sjálfsögðu)  þá var reksturinn  auðvitað  í góðu lagi og oftar en ekki um talsverðan tekjuafgang að ræða.Og þá fór að versna í málunum því þegar framtalið lá fyrir og sýnt var að um talsverða skatta yrði að ræða þá var auðvitað morgunljóst að ekki hafði verið rétt haldið utanum bókhaldið. Annaðhvort voru tekjurnar oftaldar eða gjöldin vantalin nema hvorutveggja væri.Smávægilegar athugasemdir eða  auðmjúkar spurningar
undirritaðs sem viku að þessu var hinsvegar ákaflega illa tekið og yfirleitt lauk þessum framtalsumræðum á þann veg að ég gæti sem best séð um bókhaldið sjálfur. Til þess kom að sjálfsögðu aldrei sem þarfast ekki útskýringa a.m.k. fyrir þá sem þekkja undirritaðan.
  Nú eru breyttir tímar og sameignafélag sem rekur búið.Við búið starfa tvö stöðugildi á föstum launum og það er síðan gert upp með tapi eða hagnaði eftir ástæðum.Vegna þess að hér hafa um langan tíma starfað félagsvænar (kannski ekki mjög einstaklingsvænar) ríkisstjórnir eru skattaálögur á félög (ehf eða sf.) hóflegar og því friður um niðurstöður bókhaldsins.Vandamálið í dag er hinsvegar það að ef að vantar einhver fylgiskjöl ætlar allt vitlaust að verða. Að sjálfsögðu er bent á yngri bóndann sem er ennþá minni áhugamaður um skilvíst bókhald en faðir hans og er þá langt til jafnað.Það dugar hinsvegar skammt þannig að þessa dagana er undirritaður á tánum í kringum bókhaldarann auðmýktin uppmáluð og viðbrögðin þegar heyrist hvöss rödd með spurnarhreimi innanaf skifstofunni þvílík að hvaða hundrað m. spretthlaupari sem er gæti verið stoltur af.
Flettingar í dag: 2647
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 807780
Samtals gestir: 65302
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 17:47:48
clockhere