Færslur: 2015 Janúar

09.01.2015 20:05

Langtímadílar og hundabrask..

 Stundum er ég spurður að því hvað sé eðlilegt verð á " tömdum " hundi.

 Það vafðist fyrir mér að svara þessu . 

Enda engir tveir tamdir hundar eins og himinn og haf milli skoðana manna  og náttúrlega kvenna á því hvað sé " taminn " hundur. 

 Nú svara ég þessu greiðlega með því að rétta verðið sé það sem bæði kaupandi og seljandi telja ásættanlegt. 

Allavega meðan hundurinn stendur undir væntingum emoticon . 

 Þetta er samt ekki allskostar rétt svar hjá mér, en þó rétt svo langt sem það nær.. 

 Staðreyndin er sú að framboðið af tömdum hundum er sáralítið.  

 Þó er til alveg fullt af bændum og lausamönnum sem geta prýðilega tamið hund.   Og þrátt fyrir að ég halda því fram í tíma og ótíma að " nokkurt " hlutfall ræktunarinnar sé einskis virði í smalavinnu er samt ekkert mál að verða sér útum gott eintak til tamningar.

  Annaðhvort hjá öðrum, eða með að rækta það sjálfur. 

  Skýringin á því að ekki er meira framboð af tömdum hundum er að sjálfsögðu það að verðið sem hinn almenni bóndi er tilbúinn að borga er of lágt. 

   Með öðrum orðum hið almenna söluverð á tömdum góðum hundum er ekki rétt emoticon  .

 Mér sýnist að þau verð sem menn þola nokkuð vel að sjá séu svona uppundir 300 kallinn. 

 Nú er þörf manna fyrir góðan hund misjöfn og þó þeim fari fækkandi, er samt nokkur hópur bænda sem áttar sig ekki á því sem góður hundur getur.

   Ég hef haft dálítið að gera í símanum undanfarna daga og kvarta alls ekki undan því.emoticon
  
 Sum samtölin eru samt skemmtilegri en önnur. 

 Einn bóndinn sagði mér að hann hefði aldrei átt B C hund. Hefði alltaf verið með þessa " íslensku " . 

  Hefði hinsvegar alltaf sagt það, að þegar hann færi að eldast tæki Borderinn við. Nú færi að koma að þeim tímamótum hjá honum.  

  En þá vildi hann kaupa sér fulltaminn góðan hund. Gæti ég útvegað honum hann ?  
 Ég játaði því afdráttarlaust, en það myndi hvorki gerast í dag eða á morgun. 

  Ég fór svo yfir það hvað svona hundur ætti að geta og þyrfti að hafa til brunns að bera til að ráða við þetta. 
 Við værum svo að tala um tvö ár plús eða mínus eitthvað í verkefnið. 

 Það hentaði bóndanum ágætlega.

. Þá sagði ég gætilega að þetta kostaði dálítið  emoticon . 

   Bóndinn vissi allt um það . 

Hann væri aðeins í hestasölu og þekkti allan pakkann. Ræktunina, uppeldið, tamninguna o.sv.frv.

 Síðast en ekki síst hefði hann verið að kaupa hvolpana ( þá íslensku) á 200 kall.  
 Lítið mál að tvö eða þrefalda þá upphæð, nú eða meira fyrir góðan hund.

 Já það var óþarft að hafa fleiri orð um þennan díl. emoticon .

 Og biðlistinn minn var færður upp og viðmælandinn settur í annað sætið.emoticon

07.01.2015 20:19

Óhefðbundin hvolpasala.

 Ég þekki pínulítið allar hliðar hvolpasölunnar. 

Sem ræktandi, kaupandi og gegnum tamningu á afurðinni ásamt því að skoða og meta allskonar ræktunareintök  Border Collie. 

Tamningin og skoðunin hefur kennt mér langmest. 

 Þar hef ég kynnst breiddinni í ræktunarflórunni allt frá algjörum toppeintökum, til eintaka sem aldrei verður hægt að nota til nokkurs gagns í kindavinnu. 

 Sem betur fer er breiddin í notendahópnum líka mikil og ég hef fullan skilning á því þegar B C eigandi er yfir sig hamingjusamur með eintak sem ég myndi skilja eftir heima í smalamennsku, svo ekki sé fastar að orði kveðið. emoticon  

Og ræktun fjárhunda er ekki einföld frekar en önnur ræktun . 

 Aldrei hægt að vita hvernig parið á saman í fyrsta sinn og algengt, sama hversu góðir foreldrarnir eru, að oft séu 1 -2 eintök í hvolpahópnum sem standast illa gæðakröfurnar, þó gotið sé frábært að öðru leyti.  

  Hvolpamarkaðurinn í dag er síðan ekki mjög spennandi fyrir ræktandann. 

Ég er þessvegna búinn að velta því fyrir mér lengi. hvernig höndla eigi þetta á 
ásættanlegan hátt emoticon .

 Með síðasta got handvaldi ég kaupendurna og skilyrti söluna með því að ég temdi hvolpana.
  Þetta gekk prýðilega að öðru leyti en því að einn söluhvolpanna stóð ekki undir væntingum ræktandans. 

 Mánaðartamning dugði til að gera þá nothæfa og rúmlega það. 



  Nú steig ég skrefið til fulls með fyrra got vetrarins, er búinn að selja alla 6 hvolpana . Þrír þeirra fara til nýrra eigenda  8 - 10 vikna og koma síðan í tamningu til mín í fyllingu tímans.

 Hinir  þrír verða afhentir á mismunandi tamningarstigum eftir 1 - 2 ár. 

Ræktandinn ber síðan ábyrgð á þvi að ræktunarmarkmiðin náist. 

  Kaupendur þeirra sem ala þá upp geta skilað þeim til eins árs aldurs og fá þá kaupverðið endurgreitt . 

 Hinir verða að sjálfsögðu ekki afhentir nema þeir virki.emoticon


 Brúnó er sá fjörugasti í hópnum. Hvar skyldi hann nú lenda emoticon .

04.01.2015 19:47

HVOLPAR TIL SÖLU .

 
Til  Sölu eru hreinræktaðir Border Collie hvolpar f. 16 nóv. 2014.

 Um er að ræða tvo rakka.


                       3 af 6 rúmlega mánaðargamlir.


 Foreldrar.

 Ronja SFI 2013-2-0015 frá Dalsmynni.

 Ronja varð íslandsmeistari í fl. unghunda á landskeppni 2014.



Faðir Tinni SFI 2013-1-0046 frá Brautartungu. 



 Útgönguspáin fyrir hvolpana er að þeir verði öruggir í að fara fyrir og halda saman hóp. (Skilji ekki eftir.) Með góða eða mjög góða vinnufjarlægð og með mikinn vinnuáhuga.


 Ágætlega ákveðnir við kindur. Þeir ættu svo að verða mjög viðráðanlegir/hlýðnir í tamningu og fljóttamdir í höndum þeirra sem kunna til verka í því. 

 Þessir hvolpar munu  alls ekki henta þeim sem hafa stuttan kveikiþráð og telja að hávaði og refsingar séu leiðin að góðum fjárhundi. 


 Í framhaldi af þessari væntingaspá  er rétt að taka fram að kaupendur geta skilað hvolpunum, allt til þess að þeir ná 1 árs aldri. 

Fá þá kaupverðið endurgreitt. 

  Ekki þarf aðra ástæðu en þá að kaupandinn hafi ekki áhuga á að eiga viðkomandi hvolp.

 Söluverðið er kr 60.000 + vsk.

Þeir verða afhentir örmerktir og ormahreinsaðir.

   Ræktandinn gerir síðan þá kröfu til kaupenda að þeir hafi þekkingu til að temja fjárhund eða séu tilbúnir að kaupa tveggja til fjögurra vikna tamningu hjá honum að öðrum kosti.

 Verð á viku tamningu er kr. 12.500 + vsk.

 Nánari upplýsingar í s. 6948020 eða á  dalsmynn@ismennt.is

Video. Ronja 15 mán. http://youtu.be/ZwUQYUdj9g8


Flettingar í dag: 254
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 406
Gestir í gær: 35
Samtals flettingar: 417779
Samtals gestir: 37917
Tölur uppfærðar: 24.4.2024 13:30:56
clockhere