Færslur: 2012 Ágúst

09.08.2012 23:04

Það getur tekið í að þramma menntaveginn.

 AMMA, ég er að verða 6 ára, ég stækka heilmikið við það sagði dótturdóttirin með samblandi af hneykslan og sannfæringu í röddinni. Kannski  um næstum 7 km.( ? ) bætti hún við með þungri áherslu. 

Gamla settið var í heita pottinum ásamt dótturdótturinni og í framhaldi af umræðu um væntanlegan menntaveg hafði ömmu orðið á að spyrja um hvort ekki þyrfti að fjárfesta í nýrri skólatösku fyrir úthaldið. 

  Að sjálfsögðu var það mjög brýnt en í framhaldinu kom í ljós að það vantaði nú sitthvað fleira ef skólagangan ætti nú að ganga hnökralaust fyrir sig.
 Framansögð ummæli féllu þegar amman var svo fávís að halda því fram að sú stutta gæti a.m.k. notað sundbolinn sinn eitthvað fram á veturinn. 


 Þarna er verið að skoða sjóreknar marglyttur í fjöruborðinu vestur á Arngerðareyri og fara yfir heimsmálin fyrir ári síðan.


  Ég gætti þess að blanda mér ekki í umræðuna þegar amman hélt áfram að malda í móinn og benda á að sundbolurinn væri hin glæsilegasta flík og ágætlega stór miðað við innihaldið.

 Ég er nú eldri en tvævetur og vissi að þarna var sú eldri með gjörtapað mál í höndunum.

Enda fór hún í það að sveigja umræðuna fimlega að öðrum og útgjaldaminni málaflokkum.

 Já það verður spennandi að fylgjast með hvað kemur uppúr plastpokunum þegar innkaupaferðum vegna væntanlegrar menntagöngu lýkur.

05.08.2012 21:05

Búpeningur þjóðvegur og rússnesk rúlletta

 Það fylgja því ýmsir annmarkar að hafa þjóðveginn þvert í gegnum bújörðina og þegar sumarumferðin er sem mest er reynt að lágmarka alla umferð yfir veginn, hvort heldur er með tæki eða búfénað. Stundum tala ég um rússneska rúllettu þegar mér sýnist umferðarhraðinn vera kominn í góða þriggja stafa tölu.



 Kýrnar eru dálítið sérsinna og hafa misjafnan ferðahraða ef þær fá að ráða sér. Hér dóla þær niðurfyrir veg árla morguns og eru ekki sérlega umferðavænar enda sáralítil umferð um þetta leyti dags.


 Á heimleiðinni fer hinsvegar stundum að kárna gamanið sérstaklega um helgar. Þá eru hundarnir látnir smala þeim að hliðinu og síðan sætt lagi að drífa þær yfir veginn í þéttum hóp.



 Hundarnir hafa gott lag á þeim og kýrnar virða þá algjörlega svo það tekur örstutta stund að koma þessum 50 gripum yfir. 

 Strax og síðast kýrin er komin af malbikinu stökkva tíkurnar upp á fjórhjól ef það er til staðar og kýrnar fá að rölta heim á þeim hraða sem þeim hentar.



 Og ökuþórarnir bera mun meiri virðingu fyrir nautgripunum en sauðkindinni og oft hefur maður svitnað þegar verið er að koma lambfénu niður fyrir á vorin.



 Hér eru það Snilld og Vaskur sálugi að stoppa hóp af þar til húsbóndinn gefur grænt ljós á þjóðveginn.

 Það eru fyrst og fremst bílar á vesturleið sem ástæða er til að óttast því vegna mishæðar sjást gatnamótin ekki fyrr en komið er nokkuð nærri þeim.

Flettingar í dag: 135
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 278
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 413489
Samtals gestir: 37138
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 12:52:18
clockhere