Færslur: 2011 Október

23.10.2011 20:12

Haustfagnaður með sviðaívafi í Dölum vestur.

  Loksins var látið verða af því að skella sér á hausthátíð sauðfjárbænda í Dölum.

Í þetta sinn var látið duga að mæta í sviðaveisluna á föstudagskvöldinu en með sviðunum var boðið uppá klassa hagyrðingadagskrá ásamt Geirmundi sjálfum að lokum.


                                                                                      Mynd Björn A Einarsson.
 Svona leit salurinn(Íþróttarhúsið út áður en gleðin tók völdin.


                                                                                     Mynd Björn A Einarsson.
 Áður en lauk var hvert sæti skipað eða 450 mann plús eitthvað.


                                                                                 Mynd Björn A Einarsson.
 Hlaðborðið var einfalt og þægilegt enda gekk diskahleðslan alveg ótrúlega hratt fyrir sig.


                                                                           Mynd Björn A Einarsson.
 Hér eru svo andans og orðsnillingarnir, Pétur , Jóhannes, Helgi,  Helga Guðný og hún Ninna í Smábæ. Þau héldu þarna uppi heillangri dagskrá og fóru á kostum undir stjórn Bjarna Harðarsonar. Frábært hjá þeim.


       Stjórn félags sauðfjárbænda.                                     Mynd Björn A Einarsson.

 Það voru sauðfjárbændur í Dölum sem sáum um matseldina og rollukallarnir stóðu sig auðvitað frábærlega við borðhaldið enda vanir að gefa á garðann.

 

20.10.2011 22:30

Að blogga um eitthvað skemmtilegt.

 Stundum þegar ég sest niður til að koma á skjáinn einhverri frábærri blogghugdettu lendi ég á allskonar glapstigum.

 Kannski þarf ég að finna mynd til að setja með blogginu og þar sem myndasafnið er orðið ansi mikið að vöxtum og illa skipulagt, gleymi ég mér oft við að rifja upp eitthvað tengt myndum sem ég rekst á og kemst ekki lengra það kvöldið.

 Ekki gengur betur ef ég ætla að leita uppi eitthvað gamalt  blogg til upprifjunar, þá verður ekkert bloggað það kvöldið.



 Þessi mynd minnti mig á nístingskalda grenjalegunótt í norðanroki með hitastig um frostmark í liðnum júnímán. Það var hlaðið upp smáskjól fyrir versta rokinu. Þarna var legið frá kl.21 til 5 að morgni.



 Þessi mynd er mun hlýlegri af honum Flugarri mínum Flákasyni. Móðirin er Fjóla frá Árbæ sem ég á þriðjungshlut í. Allir hrossaræktendur þekkja bjartsýnistilfinninguna sem grípur eigandann  þegar fæðist folald.
.


 Hér er aðal kornræktargúrú Íslands að skoða þann akur hjá mér sem reyndist verða sá uppskeruminnsti um það er lauk, með miklu af geldfræi og hliðarsprotum.


 Seinni leitin á Rauðamelsfjallinu var erfið og köld. Hér erum við staddir við Ármótin þar sem Flatnáin og Sátudalsáin( t.h. )koma saman. Sátudalurinn er næsti dalur vestan við Heydalinn með samnefndum vegi. Þarna eru fallegar fossaraðir á báða bóga, sérstaklega uppmeð Flatnánni.

Og eins og þið eruð eflaust farin að átta ykkur á, verður ekkert úr alvörubloggi þetta kvöldið.

15.10.2011 20:56

Stóri hrútadagurinn á Snæfellsnesi.

 Já, lamhrútasýningin á Snæfellsnesi fór fram í snæfellskri blíðu eins og hún gerist hvössust og úrkomumest.

 Þar sem varnarlína skiptir svæðinu var sýningin austan girðingar haldin í Haukatungu á föstudagskvöldi  og aðalsýningin síðan í Bjarnarhöfn í dag. (Laugardag.)

 Alls voru sýndir yfir 70 lambhrútar og var stærsti hópurinn hvítir hyrndir eða 45 talsins.

                                                 Frá sýningunni í Haukatungu.

 Næst stærsti hópurnn voru mislitu hrútarnir og síðan þeir kollóttu.



  Þarna voru upp til hópa frábærir hrútar og sérstaklega er gaman að sjá hvað það eru öflugir einstaklingar í mislita hópnum.


  Hér eru 5 efstu vestan girðingar. T.v. er Hriflonssonur frá Gaul sem lenti í öðru sæti og næst honum hrútur frá Hjarðarfelli sem varð þriðji. Allir algjört metfé.

 Dómararnir þeir Jón Viðar og Lárus Birgisson voru ekki öfundsverðir að gera upp á milli hrútanna þegar kom að endanlegri röðun.

  Sá efsti í þessum flokki og jafnframt sá sem dæmdist besti hrútur sýningarinnar var undan Gosa frá Ytri Skógum í eigu Ásbjarnar Pálssonar í S. Haukatungu.



 Og ég er ekki frá því að félagi Ásbjörn hafi bara verið nokkuð sáttur við daginn.



  Hér eru verðlaunahafar í hvítum hyrndum.



 T. v. Heiða á Gaul sem átti efsta hrútinn í fyrra en þann í öðru sætinu þetta árið. Ásbjörn  og síðan  Gunnar á Hjarðarfelli með þriðja sæti.



 Eigendur mislitu hrútanna . frá v. Arnar Ásbjörnsson Haukatungu, Lauga Hraunhálsi og Eggert á Hofstöðum.


Verðlaunahafar í kollótta flokknum. Harpa og Guðbjartur Hjarðarfelli, annað og fyrsta sæti og Herborg Sigríður í Bjarnarhöfn með þriðja sæti.



 Þessi stóð efstur af þeim kollóttu.



Ég held að þau Heiða og Júlli á Gaul hafi átt hrút eða hrúta í  lokauppröðun í öllum flokkum. Hér bíða þau hin rólegustu eftir niðurstöðu um toppsætin í hvítum hyrndum, þar sem þau náðu öðru sætinu og áttu síðan annan hrút í 5 hrúta röðun.



 Hér er Jón Viðar að messa yfir söfnuðinum. Nú voru í fyrsta sinn veittar viðukenningar fyrir skýrslufærðar ær sem stóðu efstar á svæðinu fyrir kynbótamat tiltekið árabil. Þar stóð efst einhver eðalær í Mýrdal  sem ég kann ekki að nefna.

 Það var Sauðfjárræktarfélag Helgafellssveitar og nágrennis sem sá um sýninguna og veisluna sem beið okkar þarna að loknum dómum. Algjörlega meiriháttar hjá þeim.

 Já, maður þarf greinilega að fara að taka á því, í ræktunarmálunum.
Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418664
Samtals gestir: 38012
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 00:18:52
clockhere