Færslur: 2011 September

12.09.2011 20:27

Hundaharkið.

 Það hefur verið óvanalega mikið umleikis í hundahaldinu þetta árið.
Tvö got sitthvoru megin áramóta og alls konar annað stúss bæði verklegt og munnlegt.

 Nú var svo Snilld mín frá Dýrfinnustöðum að skipta um lögheimili fyrir stuttu.



 Hún er 4 ára, mikið tamin og vön allskonar vinnu.
Það er hægt að segja margt gott um hana en mér fannst hún ekki nógu fullkomin í ræktunina og hafði ekki þörf fyrir hana í vinnuna.

 Snilld er undan Asa frá Dalsmynni sem fór frá mér mikið taminn. Býsna lík í útliti og að sumu leiti í vinnunni.


 Mér finnst alltaf dálítið mál að láta frá mér hvolpana, og að selja hund sem maður hefur ræktað, tamið og unnið með nokkur ár er talsvert mál. Sérstaklega vegna þess að ég veit að hundar eiga býsna misjafna æfi bæði í sveit og þéttbýli.

 Snilld þarf nokkuð ákveðinn húsbónda sem hún virðir og þykir vænt um,og ég vona að valið hafi tekist vel hjá mér. Þegar ég sel tamda hunda er málinu ekki lokað fyrr en hundurinn hefur verið á nýja heimilinu í nokkurn tíma og það sé alveg gulltryggt að hlutirnir gangi upp. Það gerir það langoftast en ekki alltaf.



 Og hún Blondie sem ég ætlaði að temja í rólegheitum er komin í reynsluvist norðuryfir heiðar.
Hún er nokkuð sérstök og skar sig algjörlega úr hvolpahópnum með ýmsum hætti.


 Þetta magnaða auga á eftir að dáleiða marga rolluna ef guð lofar og ekki rignir. (Eða þannig).

 Það kemur svo bara í ljós hvort hún verður tamin af nýjum eiganda eða ræktandanum ,  en góð á hún að verða. En það þarf dálitla lagni til þess að koma henni á beinu brautina.

Þannig að núna á ég " aðeins " eftir 4 hunda. Tvo tamda og tvær í uppvexti.

Og þið fáið örugglega að vita allt um þau áður en lýkur.

 Hvort sem ykkur líkar betur eða verr.

11.09.2011 07:58

Kýrnar, sólin regnið og rokið.

Það er enn verið að setja kýrnar út þó það sé nú bara til málamynda.



 Þær eru að vísu ekki svona léttstígar út um dyrnar núna, en út vilja þær samt komast meðan það er í boði.
 Hér á bæ er lítið lagt uppúr sumarbeitinni. Yngri bóndinn er sérlega lítill áhugamaður um að hafa um 50 stórgripi sparkandi á vallarfoxtúnunum sínum og lítur klessurnar sem þær leggja frá sér í algjöru skipulagsleysi hornauga.



 Þetta er annað sumarið sem ekki er sáð grænfóðri til beitar. Kýrnar eru semsagt inni á nóttunni og hafa  aðgang að heyi allt sumarið en nú er verið að gefa síðustu rúllur fyrra árs.



 Þessa dagana er mjólkurframleiðslan í lágmarki, burður ekki byrjaður og fjósverkin ákaflega þægileg og fljótleg.



 Og engir kálfar á fljótandi fæði.



 En byggþreskingin og flagvinnan sem átti að öllu eðlilega að vera á fullu þessa haustdaga er í biðstöðu vegna vorkuldanna svona til að sýna okkur sem lifum á landsins " gæðum "  að það er ekki nóg að plana hlutina og vera með réttu græjurnar.

Við erum bændur," og  eigum allt, undir sól og regni" .

Og rokinu náttúrulega.

09.09.2011 22:37

Hestar og hundur í leit ,- en ekki ég.

Ég fer ekki í leitir þessa helgina en smalaklárarnir eru komnir norður á strandir ásamt knöpum þar sem þeir munu svitna á sunnudaginn.



 Þessi aftari er í fríi núna, enda er þetta ársgömul mynd af þeim feðgum Þrym og Neista að mæta nýjárnaðir í hauststörfin eftir hóstasumarið mikla.



 Og hann Tinni minn fer þar í sína fyrstu alvörusmalamennsku  án þess að eigandinn haldi í hendina, nú eða fótinn á honum í þeirri frumraun. Og dj. held ég að hann eigi eftir að standa sig vel þar, þetta vandamálalausa eintak af BC..

 Reyndar sé ég ekki framá að fá að hafa hann í smali fyrr en kemur að eftirleitunum en þá verður gaman að lifa.

Flettingar í dag: 93
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414654
Samtals gestir: 37281
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 06:16:46
clockhere