Færslur: 2011 September

20.09.2011 19:47

Tinni og Dáð.Myndband.

 
  Brugðið á leik með flautuskipunum.

Hér er slóðin.  http://www.youtube.com/watch?v=gDmyndInZKs&feature=share



17.09.2011 22:12

Fagurt á fjöllum í dag.

 Já það var tekið á því í Sanddalstungunni og Hvammsmúlanum í dag.
Meiriháttar fallegt og gott veður en lognið og hitinn var ekki að gera smölum og rollum lífið léttara.


 Hér er verktakadæmið í leitinni klárt, að Tinna undanskildum, sem fékk  að keyra sig í botn á Rauðamelsfjallinu í dag.


  Slóðinn uppá Sandalstunguna er ekki malbikaður en Fordarinn þeirra Heiðarsmanna er ýmsu vanur og skilaði gangnanmönnum af miklu öryggi á leitarskil.



 Féð var hátt og t.d. úr Kaplagilinu og Svínagilinu sem eru nú reyndar leitarsvæði Dalamanna náðum við fyrir rest 40 kindum. (Trúlega allar með gulu merkin!)



 Þó við smalarnir fengjum að svitna þjáðust fleiri, og þessi velullaða lamblausa á, trúlega útigengin átti slæman dag.


Þessi ( trúlega útigengin líka) var öllu sprækari í leitinni og það var ákveðin ánægjutilfinning að sjá hana komast í rétt.
Spurning hvað gert hefði verið "órekjanlegt"  ómarkað lamb, ef rollan hefði tapast en lambið náðst.



 Uppi á Hvammsmúlanum fannst afvelta lamb sem við Dáð tókum að okkur að koma í kerruna hjá Sverri.  




 Þetta er gott dæmi um hvað menn glímdu við. Liðabólgulamb, uppgefin veturgömul og gamalá hölt á öllum.


 Og glíman við að koma fénu framhjá eða í gegnum Hvammsskóginn var með hefðbundnum hætti.




 Já, þetta tók á  og þó ég væri eldhress í leitarlok var Dáð algjörlega búin á því enda eini smalahundurinn í leitinni. Hér fær hún ótakmarkaðan kælingartíma í Sanddalsánni þegar komið var niður úr Tungunni.

 Framkoma rollnanna með gulu merkin  við hana, fyllti mig grunsemdum um að einhverjir Dalamenn þyrftu eitthvað að endurskoða hundastofninn og ræktunina hjá sér.
 Þeir sem fá kindur með tannaför á snoppunni ættu sérstaklega að athuga þetta.

Erfitt en skemmtilegt, og allt náðist sem sást, nema tvílemban á Sanddalnum . ( Gulmerkt)

 Hún stendur trúlega fyrir utan fjárhúsin heima hjá sér í fyrramáli.

Og lítur fyrirlitningaaugum á heimilishundinn.

Kjötsúpan í Hvammi stóð svo fyrir sínu í leitarlok.

14.09.2011 07:53

Olíuræktun. - Allir að finna upp hjólið.

 Það er ríkt í okkur hér á skerinu að taka hlutina með trukki þegar eitthvað áhugavert kemur fram í dagsljósið.
  Að framleiða jurtaolíu/lífdísil  hefur lengi verið í umræðunni  og nú er allt að gerast í því.
 Vegna stutts sumars hefur mest verið reynt að rækta repju sem sáð er ári fyrir uppskeru.
 Það er hinsvegar óhagstætt að uppskera ekki akurinn nema annaðhvort ár. Dýrt að bera tvisvar á áburð og svo er það mikið happdrætti hvort repjan lifir af veturinn.

 Menn hafa því leitað að fljótsprottnum tegundum sem dugar sumarið til að skila fullþroskuðum fræum.

 Þessi ræktun er svo komin í allt annan farveg en við þekkjum best, þar sem nýjar sáðtegundir hafa farið í gegnum tilraunafasa hjá RALA sem hefur síað úr þær tegundir sem ganga ekki hér eða getað bent á hvaða teg . hentar best hverjum landshluta.

 Nú má skipta þeim sem eru að þreifa sig áfram í ræktuninni í nokkra flokka.

Í fyrsta lagi eru það einstaklingar sem eru að sá nýjum tegundum og þar ber Akurdoðruna hæst en ætla má að henni hafi verið sáð í um 100 ha. víðsvegar um landið á þessu vori.

N1 er í miklu átaki í olíuræktun og hefur útvegað bændum víðsvegar um landið sáðkorn  margra afbrigða af repju og nepju til prófunar, bæði vorsáðu og vetrarepju.

 Síðan hafði Finnbogi Magnússon í Jötunn Vélum, forgöngu um að safna saman hóp ræktenda sem hafa áhuga á að leita uppi og rækta nýjar tegundir hér á klakanum. Landbúnaðarháskólinn mun koma eitthvað að því starfi

RALA er að sjálfsögðu með í tilraunum ýmsar teg. þó menn séu kannski að keyra framúr þeim með sáningu á óreyndum jurtum.

  Það er ekki mjög markvisst að fjölmargir aðilar séu að vinna að sömu tilraunastarfseminni hver í sínu horni .

                  Áslaug og Jónatan bera saman bækur sínar við Doðruakurinn í Dalsmynni.

 Dalsmynn sf,. er aðili að Jötunn Véla hópnum ásamt 4 öðrum hér og hingað komu í gær þau Áslaug Helgadóttir og Jónatan Hermannsson að líta á akurdoðruræktunina.

 Þau skráðu niður hjá sér allar tiltækar upplýsingar um sáðtíma, jarðveg , áburðarskammta teg,yrkis og mátu síðan ástand akranna.


Svona leit það Dalsmynnisakurinn út að hluta,  um metersháar plöntur en mættu vera komnar lengra í þroskastiginu. Þarna var einungis borið á um100 kg /ha. af köfnunarefnusáburði með 27 % N.



 Hér var öðru yrki sáð í nýbrotið land sem var grófunnið með slæmu sýrustigi og lítilli áburðargjöf. Þrátt fyrir lágan vöxt var fræbelgjafjöldinn svipaður og á góðu ökrunum.


 Hér hefur Rauðkollstaðarbóndanum tekist að lokka vísindamennina með sér út á byggakur.

Ein af stóru spurningunum með Doðruna er hvort hún þarf sama hitastig og byggið til að loka þroskaferlinum eða vinni áfram þó kólni.

 En það væri vænlegra til árangurs ef hægt væri að ná betur utanum það sem er menn eru að gera og bæta alla pappírsvinnu í kringum ræktendurna
.
Flettingar í dag: 384
Gestir í dag: 73
Flettingar í gær: 256
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 402125
Samtals gestir: 36570
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 14:45:32
clockhere