Færslur: 2011 Júlí

18.07.2011 23:35

Óþurrkasumur og önnur sumur.

 Ég stæri mig gjarnan af því utan bloggs og innan að maður setji erfiða árferðið afturfyrir sig og eyði því af harða diskinum.

 Staðreyndin er nú samt sú að t.d erfiðustu rigningarsumrin sitja nokkuð vel inni í kollinum, þó farið sé að slá í góðu sumrin sem liðu áhyggjulaus með botnlausri blíðu og hamingju.


                              Dálítið fjarlæg uppákoma  í dag.
 Það er reyndar óskaplega langt síðan túnin gengu í bylgjum undir " litlu  " vélunum sem reyndar voru á dekkjum sem við köllum skurðarskífur í dag.


                         Svona græja hefði komið sér vel í dótakassanum þá.
 Og maður var orðinn algjör snillingur í að lesa úr lægðum og hæðum og gjörnýta hverja þurra stund sem gafst til heyskapar.

 Það verður nú að segjast eins og er að þeir hæfileikar nýtast alveg með afbriðgum illa síðustu árin.

Nú er varla hægt að segja að rignt hafi hér almennilega síðan í öndverðum maí og þó meira hefði orðið úr skúraleiðingum hér á svæðinu í dag en veðurfræðingarnir spáðu, fékk akkúrat bletturinn sem ég bý á alveg sérstaklega lítinn skammt.

 Það rigndi samt  greinilega þokkalega mjög víða í kringum mig og vinir mínir á Austurbakkanum fengu sem betur fer nokkuð góðan skammt, enda Austurbakkinn mun viðkvæmari fyrir endalausum þurrkum en gósenland Vesturbakkans.

 Hér var verið á fullu að heyja fyrir Hestamiðstöðina og ef rétt er lesið á veðurkortin næst vonandi að rúlla restinni þar á morgun. Þá eru eftir fyrri sláttur á nokkrum ha. á ýmsum leigutúnum.

 Þessi miklu þurrkasumur ( óþurrkasumur á öðrum landshlutum) ár eftir ár, vekja samt upp ýmsar spurningar sem enginn getur svarað.

Enda langbest að setja erfiðu árin afturfyrir sig og eyða þeim af harða diskinum, eða þannig.

Já, hér er svo alveg botnlaus blíða dag eftir dag.

 

14.07.2011 23:04

Og kýrnar leika við kvurn sinn fingur.

 Þegar farið var í fjósbreytingarnar var legið yfir því hvernig ganga mætti frá flórum og stéttum til að lágmarka hálkuna því blessaðar kýrnar eru nú engar fimleikastjörnur í lausagöngunni.

 Skemmst er frá því að segja að það fannst engin  alvörulausn sem maður keypti svo þetta endaði í hefðbundnu fúski sem gerðist því hálla sem það eltist.

 Þegar Guðmundur Hallgríms. var svo kominn með lausnina sem maður var kannski að leita að var ekki beðið boðanna.



 Hér er hann svo mættur með fræsingagræjuna og er óvanalega virðulegur á svipinn.

Þetta er u.þ.b. 2 - 3 mm djúpar rákir og engum blöðum um það að fletta að þetta er að svínvirka.



 Hann fræsti hjá okkur flórana og steyptu gólfbitana við brynningarkerin.



 Mjaltabásinn sem í var lagt efni með sandkvarsi var ágætlega stamur lengi vel. Nú er hann að verða leiðinlega háll og spurning hvenær Guðmundur verður klár í að redda því?

 En það er ljóst að kýrnar verða að fara að æfa sig í einhverju öðru en skautadansinum.

13.07.2011 21:17

Brakandi þurrkur og glottandi danir.

 Það er búið að ríkja hér brakandi þurrkur í óratíma: Grasið er slegið og þeir sem vilja halda nokkru rakastigi mega hafa hraðar hendur að rúlla því. Hinir sem vilja hafa velþurr hey í boði gátu látið heyið liggja í 1 - 2 sólarhringa , rakað upp og rúllað, án þess að snúa.

  Sprettan er misjöfn en sendnu túnin fara mjög illa í þessu tíðarfari. Mýrartúnin sem fengu áburðargjöfina tímalega virðast ætla að skila sínu og eftir að hafa rúllað megnið af fyrri slættinum er ljóst að hér er að nást meðaluppskera. Allt vallarfoxið var slegið um skrið svo þrátt fyrir að vera um 1/2 mán seinni  að slá eru gæðin fín.

 Hér er einungis notaður  N áburður með mykjunni og það sást vel hvar hún var ofmetin eða réttara sagt ekki borið nægilega mikið á af henni. 


 Það stóðst svo á endum að rúlluvélin klikkaði á síðustu hekturunum á 4. bænum sem hún þjónustaði í þessari törninni.
 Þó þarna hafi bara farið rafsuða, tók greiningin langan tíma og erfitt að komast að til viðgerðar.
Það er því órúllað á nokkrum ha. og þó mikil rigning sé eitthvað sem sárvantar, kom það sér vel fyrir viðkomandi að ekki ætlar að blotna að ráði í múgunum hjá honum.

  Nú er svo verið að bera á fyrir seinni sláttinn þó seint sé, svo aftur komist skikk á rúllulagerinn.


 Danirnir í hundasjói dagsins, hlógu að mér þegar ég reyndi að fullvissa þá um að hér væri alltaf logn og blíða eins og í dag. Trúlega hefur annar gædinn þeirra, sem er fyrrverandi sveitungi verið búinn að segja þeim einhverja vitleysu.

Flettingar í dag: 97
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 278
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 413451
Samtals gestir: 37130
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 09:44:31
clockhere