Færslur: 2011 Júní

08.06.2011 06:14

Rebbinn, fuglaflóran og fjárstofninn.

 Maður veltir því fyrir sér hvaða áhrif kuldarnir hafa á fuglavarpið þetta vorið án þess að komast að vitrænni niðurstöðu.

 Hvíta gelddýrið sem ég fylgdist með dágóða stund í fyrrakvöld fór um talsvert svæði án þess að nokkur fugl fylgdi því.

 Það sagði mér að ekkert varp væri á þeim slóðum.



 Það grillir í það ( hvíti bletturinn) í um 1 km fjarlægð frá mér þar sem ég sat í bílnum.

Þetta dýr var algjörlega í vetrarhárunum og einkennilega styggt. Trúlega kynnst hættulegum kyrrstæðum bíl einhverntímann. Þetta var hinsvegar nýtt dýr fyrir mér á þessu svæði sem segir nú kannski ekki mikið.

 Nú er grenjavinnslan að bresta á og reynt að fækka þeim gelddýrum sem gefa færi á sér.

Þeim hefur fækkað um 7 í sveitarfélaginu það sem af er júní og af þeim eru 2 geldar læður.



 Það sem kemur á óvart eftir tiltölulega mildan vetur er að dýrin er upp til hópa frekar grannholda og kannski spilar staðan í varpmálunum ínn í það.

Það eru 2 - 3 óþekkt greni virk í sveitarfélaginu sem gerir þetta dálítið erfitt og þýðir  að fuglastofninn er í lágmarki á ákveðnum svæðum.  Staðan er samt ekki það slæm að maður reikni með dýrbítum í sveitinni.

                                                                                                 Mynd. Keran Stueland Ólason.
 Það væri óskemmtilegt að vera ræstur út í svona dæmi.

06.06.2011 07:32

Greni, Furur og frekjudósir.

Ég var dreginn með í að taka út skógræktina eftir veturinn.

Og ekkert fjórhjól takk fyrir.


Innan skógræktar er Hlíðartúnið sem er slegið fyrst allra túna og var gjarnan kallaður montbletturinn í gamla daga. Það hefur nú oft verið orðið slægt um þetta leiti.


Skógræktar og fararstjórinn áhyggjufull yfir þéttleika skógarins.



Lúpínan gerir ósvífna innrás í berjabrekkuna mína. Reyndar heitir lúbínan  " frekjudós " hér eftir að ömmustelpan áttaði sig á útrásareiginleikum hennar.



 Hér er furan þó að stinga hana af og mun þjarma að henni í fyllingu tímans.


Og svona er ástandið á afréttargróðrinum á Núpudalnum 4 júní 2011. Fjær mýri sem greni var plantað í sl. sumar.


Þessi hafði lifað af veturinn en aðeins þurrkkalin í toppinn eftir kuldakastið í vor.


 Þessi hjarði enn þó hún hafi nú verið sett niður á vonlausan stað í tilraunaskyni.


 Nokkur ár í að þessar plöntur setji svip á landið. Nokkrir mán. í að þær Spes og Blondie sýni hvað í þeim býr.



 Þessi er frá dögum mömmu í heimareitnum.


 Ömmustelpan klár í skógræktarvinnuna og glímuna við frekjudósirnar í berjabrekkunni.

01.06.2011 08:22

Erfiður gærdagur.

 Þar sem ég er ódrepandi áhugamaður um hinar dreifðu íslensku byggðir tekst mér alltaf að sveigja hin margvíslegustu símtöl sem ég fæ, að landsins gagni og nauðsynjum.

 Langoftast snúast símtölin um hunda til að byrja með, en enda síðan í hinu almenna búsýslurabbi enda yfirleitt um búandi menn að ræða þó það sé nú alls ekki algilt.

Þó ég þekki oft hvorki haus né sporð á viðmælandanum kannast ég oft við  einhvern nágranna hans og þá er gjarna tekin umræða sem er nágrannanum misjafnlega hagstæð eftir því hvaðan vindurinn blæs hverju sinni.

 Í gær hringdu í mig þrír bændur sitt af hverju landshorninu og eftir að hundamálin voru afgreidd bar þeim öllum saman um vorkomuna.

 Gróðurinn stóð í stað vegna kuldanna og bæði vestfirðingurinn og hornfirðingurinn voru með túnin kjaftfull af fé þar sem úthaginn var handónýtur enn.

  Og til viðbótar við helv. harðindin er frjósemi íslensku landnámskindarinnar greinilega komin úr böndunum og þrílembur og enn meiri fleirlembur farnar að bætast við vandamálalistann.

Ég hafði enga samúð með þeim, enda gamall í hettunni og man margfalt verri vor og mun hugsanlega eiga eftir að lifa þónokkur vor í viðbót af þessum gæðastandard.

 Það tekur samt á að veita svona áfallahjálp ásamt því að taka inná sig ýmis hundavandamál svo gærdagurinn var nokkuð erfiður.

Sem betur fer hringdi enginn í mig af Langanesi.
Flettingar í dag: 273
Gestir í dag: 45
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414834
Samtals gestir: 37307
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 17:33:40
clockhere