Færslur: 2010 Ágúst

05.08.2010 21:58

Kraftaverkið í bygginu.

Það leit illa út með byggræktina hjá mér í júníbyrjun.

Mér fannst akrarnir vera röndóttir, skellóttir og yfirhöfuð misprottnir og illa sprottnir.

Ég kenndi sjálfum mér um (aldrei þessu vant) því ég hafði breytt verulega útaf hefðbundinni áburðargjöf í þetta sinn.

 Ekki með eina eða tvær spildur heldur allan pakkann rúman 21 hektara.

 Breytingarnar fólust í því að búfjáráburður var borinn á alla akrana  ýmist sauðfjártað/hálmur eða mykja.

 Síðan var einungis köfnunarefnisáburður borinn á og áburðarskammturinn minnkaður talsvert frá fyrri árum eða í um 25 - 49 N á ha. eftir því hvort byggi hafði verið sáð áður í akurinn.



 Hér er akur sem er á fyrsta ári í byggi,  tún sem var plægt upp sl. haust. áburðargjöf 27 N/ha.

Hann leit skelfilega út en hefur tekið alveg rosalega við sér síðan um miðjan júní.



 Þessar tvær spildur hér eru á nýbrotnu landi sem fékk mykju og um 28 N/ha.

Þær litu alveg hörmulega út og ég var búinn að ákveða að auka mykjuskammtinn um helming næsta vor.



 Eitt af því sem ég óttaðist var að arfinn tæki þetta yfir og rústaði ökrunum . Byggið virðist undantekningarlaust hafa skilið hann eftir. Það er helst Lómurinn sem er í erfiðleikum.



 Þetta þurra en sólríka sumar virðist heldur betur hafa losað um köfnunarefnið í mýrarjarðveginum og mér sýnist nokkuð ljóst að þrátt fyrir lága áburðargjöf verði köfnunarefnið til vandræða þegar maður vill að vöxturinn stoppi og jurtin geri sig klára fyrir þreskingu.



 Svona líta þeir akrar hinsvegar út sem eru í sandi eða miklu þurrlendi.



 

 Rigningarnar láta svo algjörlega á sér standa hér,  en trúlega á maður svo eftir að segja eitthvað misjafnt um þær, þegar kemur að þreskingunni og það verður búið að vera úrhelli dögum saman og styttir seint og illa upp.
 Skelfingarnar sem byggræktin virtist stefna í hjá mér er úti,  og útlit fyrir mjög góða uppskeru.

En hún er nú ekki komin í hús.

En það er á svona sumri sem mýrarakrarnir eru inni.emoticon

03.08.2010 07:59

ýmsar myndir. Vestfirðir.


Á flakki um vestfirðina finnst manni stundum að þau býli sem ekki heita Laugaból heiti Kirkjuból.

Þetta er að vísu aðeins ýkt en samt.

Í Önundafirðinum eru Kirkjubólin  3 og hér er kirkjan sem er í hlaðinu á Kirkjubólinu í Valþjófssdal.



 Það var enginn heima svo Guðmundur Steinar slapp við að gefa mér kaffi í þetta sinn.

 Réttin við fjárhúsin hjá honum, vakti sérstaka athygli á þessu snyrtilega býli.
Hún hefði sómt sér kringum hvaða húsgarð sem var.



 Það var svo komið við í Vatnsfirði, því mín heittelskaða er mikil áhugakona um kirkjur.



 Mér fannst hinsvegar hjallurinn ekki síður áhugaverður en hann er ekki byggður til einnar nætur.
Veggþykktin var svona út í gegn.

 
Mannlífið í Ísafirði breyttist á augabragði þegar ferðalangarnir úr þessum farkosti hér flæddu um staðinn. Mest eldra fólk.



 Hér falla öll vötn til Dýrafjarðar en ekki er mælt með því, að gamli vegurinn inn fyrir fjörðinn sé ekinn.



 Og svona litu bláberin út í einum Ketildalanna, en  berjasprettan vestra er ekkert sérstök miðað við mokið hér á Nesinu.



 Ætli sé ekki best að enda þetta með einni af fyrstu myndunum sem var tekin í ferðinni.

Þessi hógværa lækjarbuna leyndist í Veiðileysufirðinum spölkorn frá veginum.


 Ég þakka svo lesendunum samfylgdina í þessari vestfjarðabloggferð, ánægður með að geta á nýjan leik snúið mér að daglega amstrinu í sveitinni.emoticon

01.08.2010 07:48

Selárdalur. Listasafn og afhelguð kirkja.


Vegurinn út Arnarfjörðinn var vondur og aumkvunarvert að sjá skuldahalana í loftköstum aftan í jepplingunum á þessum vegum sem þeir eru alls ekki gerðir fyrir.

 Við tókum veginn hins vegar ekki nærri okkur og vorum mætt árla morguns í Selárdal þar sem byrjað var á að skoða listasafn og byggingar Samúels Jónssonar..



Þarna er búið að koma upp góðri hreinlætisaðstöðu enda er gífurleg umferð á staðinn.



 Það er langt komið að gera þetta hús upp að utan  en það stendur læst enn um sinn.



 Ég kom hérna síðast fyrir um 12 árum en þá var allt  í mikilli niðurníðslu.



 Einhvernveginn fékk maður á tilfinninguna að listamaðurinn hefði haft frekar óljósa fyrirmynd þegar ljónin voru gerð.



 Og Vaskur taldi rétt að kanna hvað verið væri að gefa selnum.



 Kirkjan sem Samúel reisti utan um altaristöfluna sína, eftir að sóknarnefndin hafnaði því að setja hana upp í kirkjunni í Selárdal  bíður uppgerðar.



 Og afritið af altaristöflunni sómir sér vel þarna ásamt ýmsum verkum Samúels.



  Glæsilegt.



 Kirkjuloftið sýnir ákaflega vel hvaða efni stóðu að baki þessum framkvæmdum hjá listamanninum.


 Þarna er eitthvað í gangi sem ég kann ekki skil á.

 Kirkjan í Selárdal sem var of góð til að hýsa altaristöfluna hefur að því er mér skilst, verið afhelguð og bíður nú örlaga sinna, hver sem þau munu verða.




 Séð heim að Uppsölum frá Selárdal.

Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414603
Samtals gestir: 37271
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 03:29:28
clockhere