Færslur: 2009 Nóvember

17.11.2009 08:35

Refaveiðarnar. Ríkið, möppudýrin og mófuglinn sem tjónast.

 Nú stefnir í að ríkið hætti að taka þátt í refaveiðunum.

 Það hlálega við þennan " sparnað" er það að við grenjavinnsluna vinna undantekningarlítið verktakar sem skila ríkissjóði VSK af öllum reikningum. Sýnt hefur verið fram á að tekjur ríkisisins af  virðisaukaskatti vegna refaveiðanna er meiri en þessar millur sem hafa farið í endurgreiðsluna.

 Enda er það gamalt baráttumál sveitarfélaganna að fá endurgreiddan vaskinn vegna veiðanna.



Verði þetta að veruleika mun margt breytast í refaveiðinni. Hluti sveitarfélaganna mun halda áfram veiðunum en þjarma að veiðimönnunum með greiðslur fyrir verkið.

 Önnur munu leggja af skipulegar veiðar og bændur og áhugasamir veiðimenn sinna þessu skipulagslaust.

 Þetta mun þýða það að skýrsluhald umhverfisstofnunar vegna veiðanna mun leggjast af, því forsendur endurgreiðslunnar voru nákvæmar veiðiskýrslur  frá veiðimönnum/sveitarfélögum.

 Ekkert sveitarfélag mun skila inn veiðiskýrslum vegna refaveiða komi þetta til framkvæmda .


 Í þessu  greni hefur framleiðslan verið 5-8 hvolpar á ári. Það sést fljótt á umhverfinu þegar þeir fara að berjast fyrir lífinu

 Ég þekki persónulega vel hvað skeður, þegar stærð refastofnsins takmarkast af afkomumöguleikum þeirra á veiðisvæðinu / óðalinu sínu sem minnkar sífellt eftir því sem fjölgunin verður meiri.

 Mófuglinn þurrkast fljótlega út því þó rebbinn sé klókur um margt rányrkir hann fuglinn og hreinsar gjörsamlega upp egg og unga.
 Mér hefur sýnst að mófuglinn sé ótrúlega staðbundinn, því það tekur mörg ár fyrir svona svæði að ná sér upp eftir að búið er að koma refastofni svæðisins í skaplegt horf.

Þegar svona " offjölgun" verður og mófuglinn þrotinn er stutt í að rebbi snúi sér að lömbum og síðan fullorðnu þegar kemur fram á haustið.











Dýrbitið lamb sem hefur ekki verið bráðfeigt.
Mynd af kelduhverfi.is
 
 Skynsamlegt væri hjá þessari krísuríkisstjórn ef halda á því til streitu að hætta aðkomu að refaveiðum að taka upp endurgreiðslu virðisaukaskatts af veiðunum.

 Með því myndi kostnaður margra sveitarfélaganna standa í stað og veiðiskýrslurnar skila sér inn.

 Ef niðurstaðan verður hinsvegar sú að skipuleg refaveiði leggist af í mörgum sveitarfélögum væri skynsamlegt að setja pening og atvinnulaus möppudýr í að fylgjast með  hvað gerist úti á mörkinni þegar rebbanum fjölgar.

En nú um stundir er það víst ekki skynsemin heldur örvæntingin sem ræður ríkjum.   emoticon

 Og hetjur lyklaborðanna munu fara á því meiri kostum um málið, sem þeir vita minna um lífríkið.

16.11.2009 08:30

Sunnanvert Snæfellsnes og grunnskólinn.

  Laugargerðis og Lýsuhólsskóli hafa sinnt grunnskólaþjónustunni á sunnanverðu nesinu af mikilli alúð í árabil. Nú eru hinsvegar blikur á lofti  í þeim málaflokki þar, eins og víðar.

 Línuritið fyrir nemendafjöldann er á niðurleið í augnablikinu og rekstrarstaða sveitarfélaganna krefst lækkunar á kostnaðarliðum þó að þó sú krafa sé missterk eftir sveitarfélögum.

  Eyja og Miklaholtshreppur og Kolbeinstaðarhreppur, nú Borgarbyggð hafa rekið Laugargerði samkvæmt helmingaskiftareglu í talsverðan tíma en nú stefnir í breytingar á því.

 Formlegar viðræður um samstarfið eru að hefjast og skal engu spáð um niðurstöðu þeirra.

Þó er ljóst að  breytingar munu verða í framhaldinu, í versta falli dregur Borgarbyggð sig útúr samstarfinu. Í besta falli mun rekstrarformið breytast án þess að nemendur verði þess beint varir en uppstokkun á rekstrinum mun bæði koma við starfsmenn skólans og rekstur Eyja og Miklaholtshrepps.

 Hvernig sem þessar viðræður fara, er nokkuð ljóst að enginn bilbugur er á sveitamönnunum að reka skóla  áfram enda aldir upp við það að vandamálin séu til að leysa þau.


  Breiðablik er nokkuð miðsvæðis á nesinu og kannski  verður á einhverjum tímapunkti  skoðað  að kenna hér.

 Vegalengdirnar í næstu þéttbýlisskóla eru einfaldlega þær, af nánast öllu sunnanverðu nesinu að akstur með nemendur þangað er vond lausn. 

 Að leggja upp með að aka börnum allt uppí 60- 70 km. vegalengd með tilheyrandi stoppum og akstri um misjafna hliðarvegi fimm daga í viku ætti að vaxa öllum í augum. Líka foreldrunum í þéttbýlinu sem krefjast þess að dreifbýlisskólarnir leggist af svo hægt sé að setja peninginn í þéttbýlisskólana.

 Ekki er ólíklegt að innan nokkurra ára verði farið að skoða heildarlausn grunnskólans á sunnanverðu Snæfellsnesi með hagmuni nemenda leiðarljósi.

Þeir hagsmunir geta hugsanlega slegið aðeins á hreppamörkin sem eru nú í rauninni aðeins strik á korti og auðvitað í talsverðri útrýmingarhættu.emoticon 
 

15.11.2009 08:05

Löngufjörur, náttúruminjaskrá, friðun, hverfisvernd ??

 Nú er vinnan við Aðalskipulag Eyja - og Miklaholtshrepps á lokasprettinum.

 Það var um 1996 sem talsvert landsvæði í sveitarfélaginu var sett á náttúruminjaskrá. Það var að sjálfsögðu gert án nokkurs samráðs við landeigendur sem hrukku sumir við, að sjá  landið sitt skyggt á ýmsum kortum án þess að vita nokkuð hvað það þýddi

 Það að land fari á náttúruminjaskrá hefur ekkert með nýtingu þess að gera en bendir á að þarna séu ýmis náttúruleg verðmæti fyrir hendi.


 Þetta svæði nær yfir Löngufjörur þar sem þær liggja í sveitarfélaginu. ströndina og ósnortna votlendisflóa í landi. 

 Þetta svæði nær frá og með Stakkhamarsnesi í vestri að Haffjarðará í austri og kemur við lönd 11 jarða. 

 Við skipulagsvinnuna kom fram sú hugmynd að athuga hvort áhugi væri á því hjá landeigendum að friða þetta svæði eitthvað frekar.
 Á fundi með þeim í gær kynnti Guðrún Jónsdóttir arkitekt sem sér um skipulagsvinnuna,  þá möguleika sem felast í friðun svæðisins og möguleika heimamanna í því að móta reglur um friðunina ef þeir tækju frumkvæðið í því.


    Jökull Helgason byggingarfulltrúi. Guðrún og oddvitinn  Eggert Kjartansson.

 Það fór nú eins og ég vissi, að þeir landeigendur sem þarna mættu höfðu dálítið takmarkaðan áhuga á því að koma sér undir ofurvald stóra bróðurs. Menn höfðu greinilega takmarkað álit á 
" sérfræðingunum" sem kæmu til með að fjalla um alla mögulega og ómögulega hluti í friðlandi.

 Sérstaklega var bóndinn sem lenti " blásaklaus "  í " kexrugluðum" eða allavega afar smásmugulegum landverði uppi á hálendinu í sumar ákaflega var um sig. Hann ætlar ekki að upplifa þá reynslu aftur á fjörunum hjá sér.

 Mér hefur hinsvegar þótt áhugavert í þessu máli sá möguleiki að setja hverfisvernd á tiltekið svæði eða mannvirki.

 Þá geta þeir sem er umhugað um að varðveita eitthvað á landinu sínu sett á það hverfisvernd í samráði við sveitarstjórn. Sveitarstjórnin setur reglurnar um varðveisluna og svæðið er merkt inná skipulagið. Þetta gæti átt við stór svæði eða lítil, t.d  heilu landsvæðin, álagablett, leyfar af gömlum  mannvirkjum, rústir ýmiskonar o.sv.frv.

 Þarna yrðu það semsagt heimamenn sem véluðu um hlutina frá upphafi til enda og settu reglurnar.

 Þetta var fínn fundur og niðurstaðan afdráttarlaus.

  Ekkert friðland í bili,  enda ágætlega friðvænlegt þarna niðurfrá í augnabliki
nu.  emoticon
 
Flettingar í dag: 108
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 412838
Samtals gestir: 37047
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 14:49:46
clockhere