Færslur: 2008 Maí

16.05.2008 06:27

Lambfé út.

   Já, fyrstu lambærnar fóru út í gær. Það var ekki vegna gróðurleysis eða veðurfars að það gerðist ekki fyrr, heldur er sólarhringurinn einfaldlega alltof stuttur til að koma hlutunum í framkvæmd. Árleg klaufsnyrting er gerð um leið og ærnar fara út og þó það sé einfalt mál að snyrta klaufirnar með dúkahnífnum eftir að við fórum að hafa féð á taði/hálmi er alltaf jafn önugt að þurfa að velta þessum flykkjum fram og til baka, sérstaklega þegar menn þykjast vera tæpir í bakinu. Þær biðu hinsvegar ekki boðanna og létu sig hverfa niður fyrir þjóðveg áður en húsbóndinn og hundarnir voru búnir að setja sig í stellingar til að fylgja þeim yfir veginn. Það er ekki alltaf einfalt mál með blikkdósirnar á 110 km hraða og ökumenn undir stýri sem í alltof mörgum tilvikum bera enga virðingu fyrir sauðkindinni og litlu lömbunum sem eru stundum vís með að taka til fótanna beint á bílana. Þar sem bæði  stóru hliðin voru opin vegna mikillar dráttarvélaumferðar var leiðin greið í þetta sinn og þær höfðu sloppið niðurfyrir án vanhalda. Þar munu þær síðan halda til næstu 3-4 vikurnar en þá verður fjallið tilbúið fyrir þær með öllum sínum unaðssemdum. Gróðurinn er kominn svo vel á veg að trúlega þýðir ekki að setja heyrúllu niðurfyrir. Hún yrði einfaldlega látin óétin. Sauðburðurinn er enn í lága gírnum. Gemlingarnir eru þó flestir bornir og um 10 urðu tvílemdir sem er ekki gott. Nokkrir þeirra munu fá/verða að ganga með báðum lömbunum í sumar enda eru þeir óvanalega stórir og þroskamiklir þetta árið og erfitt um vik að venja undan þeim, því það er líka dálítið um þrílembur í eldri hópnum.

 Það er svo náttúrulega afar slæmt vandamál á sauðfjárbúi, ef ekki finnst tími til að setja féð út á grænu grösin.  Eins gott að það vandamál leysist fyrir haustið.

15.05.2008 04:10

Vekjaraklukkur( rafknúnar eða innbyggðar)

 Ég er ekki frá því að hafa legið láréttur í svona  fimm til tíu sm. hæð yfir rúminu drykklanga stund áður en tekið var ofsafengið viðbragð til að slökkva á vekjaranum sem glumdi með gríðarlegum hávaða. Þetta er svona gamaldags vekjari sem gengur fyrir rafhlöðu, þar sem sem ekki tókst  að finna  upptrektan á sínum tíma.  Þá hafði mér verið gert að henda fína rafmagnsútvarpsvekjaranum mínum eftir að 
 " rafeindasegulbylgjusérfræðingur"  hafði dæmt hann sérlega lífshættulegan, mér og umhverfinu.  Þessi ágæti vekjari er reyndar ekki notaður nema á .þessum árstíma því ég hef annars innbyggðan vekjara sem dugar mér vel við eðlilegar aðstæður en nýtur ekki fyllsta trausts á sauðburði af fenginni reynslu.
Rétt er að taka fram að vekjaraskiftin á sínum tíma  voru svona friðþægingarfórn eftir að hafa þverneitað að fjárfesta í einhverri tugþúsunda græju til að halda öllum óæskilegum rafsegulbylgjum frá heimilinu. En vaktin var semsé að byrja og þarsem mín heittelskað lá steinsofandi við hliðina á mér( umlaði ekku einu sinni við hávaðann) var ljóst að fyrir svosem 20 - 40 mín. var ekki " neitt að gerast" í sauðburðinum. Trúlega hafa viðbrögðin sem lýst er í upphafi verið með með kröftugra móti vegna þess að "klipið" hafði verið framanaf af svefntímanum vegna vélaviðgerðar um kvöldið/nóttinar. Það er eins gott að sauðfjárbændur og búalið búa ekki við sama reglugerðarparagraffið og vöru og flutningaökuþórar þessa lands hvað hvíldartíma snertir.
 Og sauðburðurinn sem hefur verið afar rólegur undanfarið er nú að komast af stað og þegar heimasætan kemur um helgina eftir að hafa " skellt aftur"  skólahurðum og skruddum þennan veturinn, verður hún enn velkomnari en vanalega því við þessi " gömlu" höfum staðið vaktina, svona með öðru daglegu rísli, þar sem Atli hefur alveg verið í jarðyrkjunni , fyrst í flagvinnu og síðan á sáðvélinni en  vonandi lýkur aðaltörninni þar í vikunni eða um helgina. 

Það verður síðan að viðurkennast að þessi maítörn verður alltaf pínu erfiðari með hverju árinu(og kílóinu) sem bætist við og þegar akuryrkjan færist yfir á sauðburðinn þá!!

13.05.2008 03:43

Akuryrkjan er lottó.

Þyrftum að eiga einn svona.                       Þyrftum að eiga svona græjur hér á Nesinu.



Því verður seint breytt að akuryrkja hér á skerinu verður alltaf áhættusöm. Þegar verið er að samnýta sérhæfð tæki  sem gert er ráð fyrir að komist yfir tiltekinn hektarafjölda í úthaldinu geta komið upp vandræði ef dagarnir verða of fáir haust og vor sem hægt er að vinna við sáningar og uppskerustörfin. Upphafið að hrellingum okkar byggræktenda í Eyjarhreppnum sáluga voru miklar rigningar allt síðastliðið haust. Þær urðu til þess að ekki náðist að plægja akrana fyrir veturinn. Þetta hefði vel sloppið á góðu vori eins og átti að koma núna. Góða vorið hvað akuryrkju varðar kom hinsvegar ekki og kemur ekki héðanaf . Þetta er í fyrsta sinn síðan byggræktin varð alvöru hjá okkur sem við erum að berjast við klaka í ökrunum vel fram í  maí. Við hefðum tekið sénsinn á að sá  bygginu þrátt fyrir frost í jörð ef plægingin hefði verið fyrir hendi og náð að ljúka sáningunni á ásættanlegum tíma. En það eru ekki alltaf jólin og nú er róinn lífróður við að ljúka vinnslu og sáningu og sést ekki til lands enn.  Þó rigningin sé góð og nauðsynleg á þessum árstíma, sérstaklega ef hún er í hófi, virkar hún ekki vel á akrana við þessar aðstæður.
 Það liggur því fyrir að fara verður tvær umferðir(sáð í allt sem fært er ) um svæðið við sáninguna vegna bleytu og ásamt því að við erum þegar orðnir 10 dögum seinni en hollt er, verður ljóst að uppskerumetið verður ekki slegið þetta árið.  Að þessum skelfingum slepptum lítur ágætlega út með vorið ,allt að grænka en kalið kom aðeins við sérstaklega í nýræktunum þar sem allar lægðir sem vatn náði að sitja í lungann af vetrinum munu ekki skila uppskeru. 

  Það liggur svo við að maður fari að vorkenna sér við að lesa þetta yfir.
Flettingar í dag: 272
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 2103
Gestir í gær: 503
Samtals flettingar: 417391
Samtals gestir: 37855
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 08:56:21
clockhere