Færslur: 2008 Maí

23.05.2008 21:27

Loksins eitthvað að gerast!!

  Já nú er allt að komast í rétta gírinn í sveitinni.  Rollurnar hrista úr sér lömbin hver í kapp við aðra og þó enginn hafi beðið um að 14 % þeirra yrðu þrílemdar er það staðan í dag. Já það þýddi ekkert að láta sig dreyma um kaffipásu eða smákríu eftir að mætt var á vaktina í nótt því milli þess sem tekið var á móti, var verið að braska með þrílembinga fram og til baka. Það verður skrautlegt þegar húsmóðirin fer að ættfæra þetta allt saman?? . Dóttirin sem var búin að yfirtaka stóran hluta af rollustússinu brá sér í bæinn að taka á móti einkunnunum sínum. Þar sem henni hlotnaðist í vöggugjöf góður slumpur af námshæfileikum foreldranna(af miklu að taka þar) voru þær vægast sagt frábærar og til hamingju með það Halla Sif.

   Svo er búið að pakka saman jarðvinnsludótinu þetta vorið  og mátti ekki seinna vera. Og í þessun skrifuðu orðum rennur rándýr áburðurinn í gegnum dreifarann á hvanngræn og kafloðin túnin og mun væntanlega gera það áfram næstu dagana. Veðráttan er búin að vera ólýsanlega fín í marga, marga daga og samkvæmt langtímaspánni lítur þetta allt vel út svo langt sem augað eygir. Var svo einhver að kvarta?? 

  Ef ég fengi svo  eins og  einnar nætur svefn fljótlega væri lífið alfullkomið.

22.05.2008 03:28

Kaffi og kropp.

 Já þetta er trúlega  í fyrsta sinn í samanlagðri sauðburðarsögu minni sem ég er sestur niður fyrir kl. fjögur að morgni með kaffibolla. Til vitnis um að ístöðuleysið er algjört, er Nóakropp í hinni hendinni. Eins gott að síðasta sauðburðarhrinan stendur yfir. Við lauslega skoðun frúarinnar á frjósemisstöðunni kom í ljós að þrílembufjöldinn helst nokkurnveginn í hendur við einlemburnar það sem af er sauðburði.Síðasta sólahringinn  eru hlutföllin þó 4 á móti einni einlembu. Þar sem stærsti hluti(lítill) einlembnanna var í sæðishópnum nýttist hann illa í þrílembingadæminu og stefnir nú í að þó nokkrar ær muni ganga með þrem lömbum í sumar. Nú felst aðal undirvenjufídusinn í því, að venja þrílembing undir tvílembu sem er vænlegri til að ganga með þrjú en orgínal  móðirin. Það er svo dálítið blóðugt að þrátt fyrir mikla snilld minnar heittelskuðu við þessa iðju tekst ekki alltaf að fá einlembu til að taka að sér aukalamb, sérstaklega ef það er orðið nokkurra daga gamalt. Þá falla  stundum  nokkur ókristileg orð um lundarfar blessaðrar sauðkindarinnar  af munni undirritaðs en húsmóðirin er eins og menn vita mun dannaðri hvað þetta varðar.
 
  Nú er byggsáningu lokið þetta vorið og endaði með því að hér var ákveðið að sleppa sáningu í rúma 5 ha. Þarna var um að ræða akra sem átti/á að loka með grasfræi jafnframt og þar sem  að eyða þarf nokkrum tíma í frágang fyrir það, var ákveðið að við værum fallnir á tíma og rétt að snúa sér að öðrum vorverkum. Því miður er afkoman í byggræktinni þannig, að ekki dugar að láta alvöru búreksturinn víkja fyrir henni eins og gerst hefur í vor. Það var fyrst í dag (gær) sem verið var að sá rýgresinu sem á að slá a.m.k. tvisvar og ekki farið að koma áburði á tún enn, sem er orðið löngu tímabært. Það þarf því að hugsa þessa akuryrkju "aðeins"  upp á nýtt fyrir næsta vor. Það var svo loksins í gær sem ég komst í fyrstu yfirferð á girðingum. Framkvæmd var " skemmri skírn" á hluta fjall/túngirðingarinnar til að koma rafmagninu áleiðis niður fyrir veg svo hægt sé að ná einhverri stjórn á fjárbeitinni. Nú var alvöru snjór í vetur og þótt hann sé fínn fyrir snjósleðana kom í ljós að talsverð vinna liggur í girðingum umfram það sem verið hefur undanfarin ár.

  Já það verður tilhlökkunarefni(eða þannig) að komast í sauðfjárveikigirðinguna sem er örugglega undir snjó að hluta enn og verður það fram á sumar.

20.05.2008 04:15

Sauðburður/goðafræði!!


 Ég verð óneitanlega var við það að mín heittelskaða lítur mig tortryggnu rannsóknarauga eftir hina ógætilegu spurningu mín úr goðafræðinni. Eftir á að hyggja verður að viðurkennast að spurningin bendir til mjög alvarlegra bilana á harða diski undirritaðs sérstaklega ef haft er í huga að hann er/var sérstakur áhugamaður um málaflokkinn og er ekki ótrúlegt að endað verði í ásatrúaflokknum áður en lýkur.
 Það góða við þessa uppákomu er þó það, að frúnni er enn umhugaðra um velferð mína en fyrr (var í góðu lagi) þó hún sé ekki farin að ganga jafn langt í kröfu sinni um hvíldartíma mér til handa og stóri bróðir ríkið gengur gagnvart atvinnubílstjórum þessa lands.

  Af sauðburði er það hinsvegar að frétta að með heimkomu heimasætunnar fór allt að gerast og fjölgar nú fénu jafnt og þétt. Stærsta vandamálið í augnablikinu er óhófleg frjósemi og þegar ógæfusöm móðir missti einlembinginn sinn í fæðingu og tók tvö að sér í staðinn var það talsverður léttir. Hún tók upp á arma sína tvílembing undan júgurbólguá og þrílembing undan gamalær. Nú er lifað í stöðugum ótta um að lömbin verð þrjú í stað tveggja því þrílembumetið sem slegið var í fyrra er komið í verulega hættu. Þetta gerist þrátt fyrir að svokallað fengitímaeldi er löngu liðið undir lok í Dalsmynni, kjarnfóður( bygg) ekki gefið nema gemlingum eftir áramót og síðan eftir burð þar sem því verður viðkomið í jötuleysi nútímans.

  Það er svo óþarft að taka fram, að nú eru engar spurningar bornar upp við kvöldverðarborðið nema að vel ígrunduðu máli.
Flettingar í dag: 190
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403404
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:52:32
clockhere