Færslur: 2008 Mars

01.03.2008 23:25

Stóri Langidalur ,fjárlaus eða??

 Það voru 100 % afföll á Eyhreppingum sem voru bókaðir á námskeiðið hjá Vesturlandskógum í dag. Einn bar fyrir sig jarðarför,(sá mokaði snjó stóran hluta dagsins) .Halla fór í bæinn að heimsækja slasaða móður sína og sá þriðji hringdi suðreftir og sagði að hér væri brjálað veður og allt kolófært.Vonandi hefur hann  tekið ofan sólgleraugun á meðan. Ég hinsvegar fór aldrei þessu vant að moka hestamiðstöðina uppúr snjónum og nú dugði ekkert minna en CAT 6 jarðýta til að hreinsa afleggjarann og planið. Ég hafði hraðar hendur við það, því búið var að ákveða að gera stálheiðarlega tilraun til að staðfesta algjört fjárleysi í St. Langadalnum. Uppúr kl 1 var síðan brunað af stað á fjórum sleðum. Þegar kom upp á fjallgarðinn var mikill snjór sem var laus í sér. Þegar við Atli höfðum skrunað niður stóru brekkuna sunnan við Hestinn stoppuðum við og biðum eftir samferðafólkinu.Um leið og við stigum af sleðunum vissum við að upp þessa brekku færum við ekki aftur, því við sukkum uppfyrir hné í mjöllinni. Næsta stopp var efst í drögunum niður í dalinn.
 Eftir að hafa skoðað aðstæður í kíkinum lá fyrir að þarna kæmumst við ekki því þó snjórinn hefði verið í lagi var áin sem þveraði hraunið fyrir neðan okkur auð og ófær fyrir sleðana. Það var vont því dalurinn var alhvítur norðurúr og hefði verið meiriháttar að nýta sér það. Það var síðan keyrt norðan við Hestinn , niður á Flatir og síðan upp þar til við hittum á slóðina okkar upp úr Núpudalnum. Þegar kom niður á dalinn braut félagi okkar sá sem var á skilorðinu það . Nú á eftir að ákveða hvort honum verði veitt skrifleg áminning. Spurning hvort verði ekki að hafa sleðann hans í bandi í næstu ferð. Það verður ákveðið þegar hann hefur náð sér og búið verður að fara yfir myndir af afbrotastaðnum.
Flettingar í dag: 283
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403497
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 15:28:12
clockhere