Færslur: 2008 Mars

27.03.2008 23:23

Púki.

  Rétt í þann mund sem Óli Lokbrá var að koma mér inn í draumalöndin hrökk ég óþyrmilega upp við mikinn gauragang í minni heittelskuðu. Hún þaut framúr með miklum látum, út að glugganum og endurtók  hvað eftir annað:  Guð, hann datt í heita pottinn , hann drukknar,hvar er hann??
 Ég hafði verið rammfastur fyrir, frá upphafi búskaparins að ekki yrði köttur á heimilinu.
Þetta var náttúrulega virt eins og aðrar grundvallarákvarðanir húsbóndans og þegar yngri dóttirin fékk það allt í einu á heilann að fá annaðhvort kött eða hamstur haggaðist gamli maðurinn ekki enda um algjört prinsippmál að ræða. Eldri dóttirinn sem var löngu sloppin undan ægivaldi föður síns fékk sér náttúrulega kött um leið og hún byrjaði búskapinn. Því miður (fyrir mig) reyndist kötturinn vera læða og ekki nóg með það heldur var hún með frjósamara móti. Þegar búið var að troða kettlingum inn á alla vini og óvini frá Skagafirði og suðurúr birtist dóttirin eitt sinn í föðurhúsunum og gaf yngri systur sinni ótótlegasta kettling sem ég hef nokkurn tíma augum litið, kolsvartanog kvenkyns  í þokkabót. Varð nú fátt um varnir. Liðu nú fram stundir, kettlingsóbermið varð að myndarlegasta ketti og það var ákveðinn léttir að kyngreining systranna var lítils virði og hlaut sá svarti nafnið Púki. Það kom að því að Púki komst upp á að fara út að skoða heiminn og einhverra hluta vegna var það glugginn á hjónaherberginu sem var notaður fyrir útgöngudyr. Undir glugganum er hinsvegar heiti potturinn staðsettur og vegna sérvisku húsbóndans er engin ljósmengun leyfð við þann hluta hússins svo stjörnu og norðurljósaskoðun geti farið ótrufluð fram. Það sem olli síðan háttalagi húsfreyjunnar sem vikið er að hér að ofan var að Púki sem var á leið inn eftir kvöldgönguna hafði lent ofan í heita pottinum  með miklu skvampi, hvæsi og formælingum. Til þess að auka á hugarvíl minnar heittelskuðu var skuggsýnt út að líta, yfirborð pottsins ókyrrt og virtist sem dökkur skuggi flökti um undir vatnsyfirborðinu. Eftir að húsbóndinn hafði unnið það sér til svefnfriðar að kveða uppúr með að að kötturinn væri ekki í pottinum  lögðust hjónin til svefns dösuð eftir þessar geðshræringar allar. Það var síðan kl. 3.05 sem bóndinn rumskaði við aumkvunarvert mjálmið í Púka sem vildi láta opna gluggann betur svo inngangan gengi nú hnökralaust fyrir sig. Urðu fagnaðarfundir með okkur félögunum því bóndinn var farinn að hafa áhyggjur af blautum  kettinum í rokinu og frostinu. Og nú eru bara 8 líf eftir hjá þeim svarta. (Það er alltof mikið).
 

26.03.2008 23:33

Timburmennirnir.

 Þær báru sig heldur illa margar kýrnar í dag, haltar og skakkar eftir klaufsnyrtinguna.  Nokkrar voru bara illa haldnar.Trúlega hafa nokkrar tognað í sviftingunum og aðrar tekið snyrtinguna nærri sér . Þetta er  greinilega fóðursparandi aðgerð(tímabundið) og  leysir tankvandamálið í leiðinni , svona í bili. Ég lét svo hafa mig í það það trilla bygginu hans Ásgeirs og félaga á traktor inní Hólm . Þar sem traktorinn er alvöru var þetta nú ekkert skelfilegt, og byggið sem fór vestur yfir fjörð í þetta skipti var alveg úrvalsgott. (Engin hálmstrá). Við sem erum í byggþurrkuninni erum orðnir nokkuð naskir á gæðin af einstökum ökrum. Sem sagt allt gott, en misgott. Mér þótti það umhugsunarefni þegar kunningi minn og þrautreyndur byggræktandi sem  keypti nokkur tonn af innfluttu byggi til að láta enda ná saman hjá sér, hafði aldrei gefið þvílíkt drasl áður!! (Þetta innskot er nú bara svona til fróðleiks.) Þessi Stykkishólmsferð varð hinsvegar til þess að rúningnum sem framkvæmast átti í dag var frestað, okkur bændunum til mikils léttis. Til að fullkomna hamingjuna er morgundagurinn og helgin fullbókuð og óhjákvæmilegt að fresta rúningum framyfir helgi. En dj. verður það nú samt gott þegar hann klárast.

25.03.2008 23:46

Snyrtipinnarnir.

   Það hafðist af að klaufsnyrta  kúahópinn ,fjörutíu og eitthvað og gekk bara vel. Kvöldmjaltirnar töfðust að vísu um klukkustund og þá átti eftir að gefa öllum pakkanum þannig að það var verið að til kl. 9.
 Þetta var nú léttara en ég hafði reiknað með sérstaklega fyrir mig sem sá um að hafa tilbúna kú í tökubásnum um leið og klaufskurðarbásinn losnaði. Atli og Guðmundur stórsnillingur  sáu um snyrtinguna.  Atli sá um lagklaufirnar og að húkka böndunum af og á o.fl. en yfirsnyrtirinn sá um hitt. Það var ekki að spyrja að því að íslenska landnámskýrin var snögg að átta sig á því að þetta var sama kerfið og í mjaltabásnum þannig að ég hleypti bara næstu kú í biðröðinni í tökubásinn. (Þetta var svona næstum þannig.) Það var síðan lýsandi dæmi um gáfnafarið hjá þessari dásamlegu skepnu að þó þær í tökubásnum horfðu á meðferðina á stallsystrum sínum í klaufskurðarbásnum þá gengu þær hiklaust í hann á eftir þeim með bros á vör. Margt skrýtið í kýrhausnum.
 Þetta var í fyrsta skipti frá landnámi að kýrnar í Dalsmynni eru snyrtar svona alvöru klaufsnyrtingu. Þrátt fyrir það var ástandið á klaufunum ekki skelfilegt nema á svona 4-5 kúm sem er auðvitað of mikið. Nú er spurningin hvort líði svona  1000 ár til næstu snyrtingar.  Atli er með fullt af myndum af græjunni og framkvæmdinni á símanum svo ef einhver er áhugasamur um myndir þá er bara að gefa comment um það.. Og þar sem þetta var langur og erfiður dagur, lagði bóndinn lykkju á leið sína út í pottinn og kom við í kæliskápnum. .
Flettingar í dag: 382
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 2103
Gestir í gær: 503
Samtals flettingar: 417501
Samtals gestir: 37878
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 20:02:30
clockhere