Færslur: 2008 Febrúar

08.02.2008 11:47

Allt ófært og enginn skóli

Þessi snjór undanfarna daga er farinn að rifja upp gamlar minningar frá árum áður þegar ófært var dögum saman, ekki hægt að sækja mjólk og nemendur komust hvorki til eða frá skóla. Í gærmorgun í góða veðrinu tókst mér auðvitað að festa mig við Hænuhólinn þegar ég var á leiðinni í skólann. Atli dró mig upp og sagði e-ð um konur snjó og bíla sem ég ætla ekkert að hafa eftir. Ég brunaði svo í skólann, en við þóttumst nokkuð viss um seinkun á skólabílum. Reyndar varð ekki seinkun heldur bara komu engir bílar. bæði voru afleggjarar illfærir og svo brast á slæmt veður um 9. Ekki bætti rafmagnsleysið úr. Þegar ég hringdi í Svan og sagðist ætla að leggja í hann heim, brást hann hinn versti við og sagði mér að vera bara í skólanum, Atli myndi kannski koma og sækja mig. Hann er eins og Atli með eitthvað konu, snjó og bíla syndróm. Ég fékk svo grænt ljós á heimferð stuttu síðar. Og auðvitað engin vandræði. Að vísu var allt ófært heim á hlað þannig að bíllinn var geymdur við Hænuhólinn. gærdagurinn fór svo í snjómokstur og þ.h. Í morgun var þvílík blíða svo ég dreif mig fyrir 8 af stað í skólann, en þegar ég var komin að skólaafleggjaranum var hringt, enginn skóli, allir afleggjarar ófærir. Þannig að ég aftur heim. Dóri Iðunn og KK voru hér í nótt svo nú er ég amma, þau ásamt Svan niðri í Söðulsholti. hann örugglega að moka snjó og skipuleggja hundanámskeið á morgun. Eins gott að hafa reiðhöllina, það hefði verið gaman að sjá hunda og kindur úti á túni núna. Ætli hefði ekki þurft að skella öllu á snjóþrúgur.! Ég velti nú fyrir mér hvort skoski kennarinn kemst. Eins gott því Halla Sif er búin að taka að sér matseldi á námskeiðinu og sér gróðann í hillingum. Enda er dýrt að vera framhaldsskólanemi í Reykjavík og allir peningar vel þegnir.

07.02.2008 23:04

Hvellur

 
Þó ég kvarti sjaldan undan veðrinu hér á nesinu ætla ég ekki að halda því fram að það hafi verið gott í dag. Reyndar var það fínt á leiðinni út í fjós í morgun ,jafnfallinn ca. 30 cm snjór og logn. Fljótlega fór að kula og uppúr 8 var komið snælduvitlaust veður.
 Það stóð á endum að þegar ég var að snurfusa mjaltabásinn að loknum mjöltum fór rafmagnið. Þar sem um sama leiti kom útkall frá Hrossholtbændum um að þeir hefðu reynt utanvegaakstur með slæmum árangri, var Atli sendur í björgunina en ég fór inn og hellti uppá kaffi með rebbaprímusnum mínum sem fannst eftir nokkra leit. Það var nokkur huggun að hitaveitan sem er afar tæknilega útbúin með varaafl sem kemur sjálfvirkt inn í rafmagnsleysi virkaði. En sá galli fylgir tækninni að e.h. klikkar helst þegar veður eru vond. Þegar rafmagnið kom síðan aftur um hádegisbil brá svo við að ekkert heitt vatn skilaði sér lengur  úr krönunum. Gamli bóndinn braust því niður að borholu og þar reyndist hafa slegið út öryggi við enduræsinguna. Þetta á ekki að gerast og nú verða tæknigúrúarnir látnir svara til saka þegar veðri slotar. Veðrið fór að ganga niður milli élja sem kom sér  vel því koma þurfti inn rúllum fyrir féð í báðum hlöðum/húsum.  Það er síðan ljóst að á morgun verður mikill moksturdagur og gott að nú eru vanir menn á ferðinni. Og austurbakkamenn aflýstu blótinu sem átti að vera annað kvöld, enda var það mikið ógæfumerki að skella því á, ofaní námskeiðið hans Gunna. Ég mun síðan sjá um að viðri vel fyrir námskeiðið  um helgina.
 Og eins gott að ekki var öskudagur í dag.

06.02.2008 23:20

Fjárhundakeppnir.

 Nú þegar allt er að gerast í hundamálunum hjá mér og útlit fyrir  a.m.k 18 daga á föstunni muni viðri vel til tamninga hunda og hrossa miðað við öskudagsveðrið, þá fór ég að velta fyrir mér hvað fjárhundakeppni væri ólík öllum öðrum keppnum.
 Í keppnum eiga keppendur sína góðu og slæmu daga en ofan á raunir þeirra hunda og manna sem spreyta sig í fjárhundakeppnunum bætist að þeir eiga allt sitt undir 4 rollum sem sleppt er í brautina. Það verður að segjast eins og er, að mín reynsla af
 " keppnisrollum " er misjöfn og aldrei á vísan að róa að fá í brautina meðfærilegan hóp. Þegar maður stendur við staurinn og horfir á hópinn  birtast úr kerrunni er erfitt að spá í hvort þarna fer ljónstyggur hópur sem muni reyna allt hvað af tekur að sleppa eitthvað út í loftið eða hópur sem muni standa sem fastast og virða hundinn ekki viðlits þegar hann birtist og ætlar að dúlla þeim af stað.Öruggt að það er annaðhvort eða einhverstaðar þar á milli.  Verstar eru þær sem þjóta eitthvað út í loftið en skilja eina eða tvær eftir í bakvörninni. Ætli ég sé ekki búinn að taka þátt síðustu 8 haustin í einni eða fleiri keppnum og hef kynnst miklu fjölbreytilegra hegðunarmynstri í þeim heldur en í smalamennskum á þessum tíma enda atburðarrásin oft fyrirsjáanlegri þar. Þó rollurnar hafi lítið breyst þennan tíma hefur verið ákveðin þróun í gangi bæði í keppninni( reglum og dómgæslu) og hundunum sem allt er til bóta. Þegar hundurinn er sendur af stað frá staurnum hefur hann 100 stig í farteskinu sem hann fengi  ef rennslinu lyki án refsistiga. Þess eru nú engin dæmi enn, en með batnandi hundum gæti það gerst ef þjálar og meðfærilegar kindur myndu birtast í brautinni og það væri góður dagur hjá hundi og smala. Á þessum árum hef ég séð nokkra hunda(ekki marga) sem hafa verið það góðir að þeir réðu undantekningarlítið við allar þær aðstæður sem biðu þeirra í brautinni og luku rennslinu oftast með 65 - 90 stigum.
 Þegar einhverjir tugir slíkra hunda mætast í fjárhundakeppnum og reyna með sér verður gaman að lifa.  Spurningin er hvenær það verður??
Flettingar í dag: 105
Gestir í dag: 15
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 413753
Samtals gestir: 37182
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 04:54:58
clockhere