Færslur: 2008 Febrúar

02.02.2008 20:56

Hundatamningar.


  Þó maður sé orðinn öllu vanur í lífins ólgusjó og bregði hvorki við sár né bana, fylgir því alltaf smá spenningur að fara með hvolpinn sinn í kindur í fyrsta sinn. Maður er búinn að fylgjast með honum vaxa upp . Sjá genin úr föðurnum birtast og önnur gen trúlega úr móðurinni sem ég þekki ekkert koma í ljós. Þegar hvolpurinn er síðan virkilega skemmtilegur í daglegri umgengni og kemur sér mjög vel, vonar maður enn frekar að vinnugenin séu líka góð. Ég hef hvolpana með mér í gegningum um leið og ég get og þó maður viti að vegna þess gæti orðið einhver aukavinna við tamninguna er ýmislegt sem hvolpurinn lærir í daglega brasinu sem vegur á móti því. Ég hef t.d leyft Snilld að aðstoða okkur Vask við að halda ánum frá gjafagrindinni meðan bætt er á hana. Það er vont mál vegna þess að þar er hún að halda kindunum frá mér. Mér létti nokkuð í dag þegar það virðist hafa sloppið til.

  Já það eru myndir að þessum tímamótum á albúminu. Þegar þið hafið skoðað þær vitið þið að bróðirinn er auglýstur til sölu hér á algjöru tombóluverði.

01.02.2008 22:19

Refir,tækni og vísindi.

  Eins og segir í síðasta bloggi vaknaði ég við vondan draum o.sv.frv. Ég kíkti því á teljarann í dag, sem aldrei þessu vant var við refaætið og viti menn það var stimpluð inn mæting kl.4.30. Þetta heitir að lifa sig inn í hlutina. Þessir teljarar eru mikið undur og fyrst eftir að ég fékk þennan lánaðan fyrir þó nokkrum árum notaði ég hann mikið. Þetta er stafrænn hreyfiskynjari sem gefur upp dagsetningu og tíma á hverri hreyfingu sem hann skynjar. Þegar ég fékk hann í hendurnar stundaði ég vetrarveiðina grimmt og var oft nær dauða en lífi þegar ég yfirgaf skothýsin sem á þessum árum voru fjölbreytileg og allt niður í holu í snjóskafli.  Teljarinn gaf mér t.d. vísbendingu um hvort gengið væri í fyrri eða seinnipart nætur . Ég notaði hann síðan við vísindalegar rannsóknir á hegðun rebbanna minna. Á þessu svæði fara þeir oftast í fjöruna á hverri nóttu og ég pældi í sjávarföllum og mætingum í ætið. Hvort þeir kæmu við á leið úr eða í fjöruna o.sv.frv. Mætingartíma fyrir og eftir meiriháttar stórviðri o.sv frv.o.sv frv.
 Á tímabili var gríðarlegt magn af flóknum vísindarlegum niðurstöðum geymdar á harða diskinum en hann er nú því miður orðinn ansi gloppóttur  eins og kunnugir vita.
 Eins og ég hef áður sagt fer allt í hring og eftir að hafa reynt allar mögulegar og ómögulegar nýungar og tæknibrellur í viðureiginni við rebbann er aftur farið að treysta á tunglsljósið og föðurlandið en ég er hættur að liggja við ætin  í snjósköflum.
Flettingar í dag: 26
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414587
Samtals gestir: 37267
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 01:57:16
clockhere