01.04.2020 20:25

Endurhæfingin

  
   Ætli sé ekki best að skrifa sig frá þessu blóðtappaævintýri .(Sjá nóv.blogg)

                Ég var fyrstu 2 vikur september á Lansanum í Fossvogi. Fyrri vikan fór í rannsóknir og endurhæfingu.

     Seinni vikan var eingöngu endurhæfing og bið eftir að komast inná Grensás. Það kom ekkert vitrænt útúr rannsóknunum svo ég endaði í hópi þeirra 16 % þar sem ekki finnst skýring á tappanum. Hjartað stóðst allar mælingar  og aldrei var ég spurður um matarræði  og engar tillögur gerðar um breytingar á því

    . Ég fór eins bratt í endurhæfinguna og ég þorði og þoldi.Hægri hendin var hreyfð og þjálfuð eins og mögulegt var. Ég velti því stundum fyrir mér hvort æfingarnar héldu áfram í svefni .emoticon 

  Tímunum saman sat ég við borð í matstofunni og fletti og raðaði spilum til að ná stjórn á fingrunum.
   Þess á milli var verið í veggrimlum sem voru á ganginum. Svo var gengið fram og aftur um ganginn þegar lítið var um að vera á honum. 

   Þjálfarinn minn var æðisleg. Ég var í tíma hjá henni einu sinni á dag .Hún stappaði í mig stálinu á  milli þess sem hún útskýrði hvað gerðist ef ég færi fram úr mér. 

  Mér fannst batinn vera ævintýralegur um leið og ég gerði mér grein fyrir að ég var mjög heppinn. 

  Fullt af tilviljunum réðu því að ég komst tiltölulega fljótt í meðferð. Það hefur bjargað því sem bjargað var.

   Ég komst svo í göngudeildina á Grensás seinni vikurnar í sept.. Var 4 daga í hvorri viku og langar helgar sem hentaði mér vel. 

   Þar var ég frá kl.9 - 2 en hélt til á sjúkrahótelinu að öðru leyti. Teymið sem tók á móti mér á Grensás  samanstóð af talmeinafræðingi, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa hjúkrunarfræðingi og lækni. Hvert öðru snjallara í að koma fólki í lag. 

   Ég skynjaði það fljótt að þau höfðu öll áhyggjur af að ég færi of bratt í þetta, sérstaklega í tækjasalnum. 
  Ég náði þó samningi um að fá að fara þar tvær umferðir daglega með því að sleppa erfiðustu tækjunum  seinni umferðina.

 Það var svo ekkert verið að fylgjast með því. 

  Upphaflega átti ég að vera þarna 3 vikur en þetta gekk hratt.

  Talmeinafræðingurinn sagði mér glaðhlakkalega að hún ætti ekki að gera mig betur máli farinn en ég hefði verið og útskrifaði mig. 
 
   Iðjuþjálfinn var orðin hin ánægðasta með hvernig hendin var orðin og sjúkraþjálfarinn sagði mér að ef ég kæmist í sjúkraþjálfun/tækjasal tvisvar í viku væri ég góður. 

  Sjálfur var ég hæstánægður með ástandið og ólmur að komast í sveitina. 

   Í dag er ég í fantaformi en það að lenda í svona uppákomu og sleppa svona vel breytir mörgu.

   Maður lítur tilveruna allt öðrum augum eftir að hafa áttað sig á því að það er ekkert sjálfgefið.
Flettingar í dag: 1447
Gestir í dag: 142
Flettingar í gær: 256
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 403188
Samtals gestir: 36639
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 22:49:02
clockhere