15.05.2017 04:52

Morgunvaktin.

 Það er stafalogn og hlýtt.  

Klukkan að verða fjögur. Algjör kyrrð í fjárhúsum og fæðingardeild utan kumrið í tveim nýbornum sem eru að kara lömbin sín.
 Önnur á eftir að skila því seinna en gefursér ekki tíma til þess. 

Krafsar , setur sig í stellingar til að leggjast. 

Hættir við. 

  Stússast aðeins meira í því nýfædda. Þegar það er komið á spena  gefst loksins næðisstund.
 Leggst, rembist og  seinni gimbrin rennur átakalítið í heiminn.  

Sólin er í þann mund að láta sjá sig yfir fjöllin í austri og fuglarnir láta í sér heyra úr öllum áttum. Tjaldurinn sem er væntanlega að koma sér upp ódýrum verkamannabústað einhversstaðar við afleggjarann er á vappi við snúrustaurana. Lambærnar sem fóru út í gær, eða í fyrradag reyndar, eru komnar heim undir hús á næturröltinu. Þær  verða svo settar niður fyrir veg í vorhólfið sitt seinnipartinn í dag. 

   Í " Hundahöllinni " steinsofa 3 tíkur og Sweep ræktunarhundur. 

 Tíkurnar hafa fengið alltof langt frí frá tamningunum en nú stendur það til bóta. Tvær þeirra ræktunarhæfar og eru ekki á förum héðan í bráð. Þeirri þriðju verður fundið gott framtíðarheimili í sumar ef tekst að vinna hana útúr vandamálunum sem hún hefur hlotið í vöggugjöf. 

  Ætli það sé ekki vegna alls þessa plús allt hitt sem ég hef í kringum mig, sem mér líður svona vel inní mér, með kaffibollann við tölvuna. 
Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 218
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 3166145
Samtals gestir: 452475
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 04:57:37
clockhere