15.04.2017 20:12

Hestaslark 2013 .

 Það rifjast sitthvað upp þegar verið er að stinga út og spá í hugsanlegar hestaferðir sumarsins.  

 Það var árið 2013 í ágústmánuði sem ég fékk fyrirmæli um að setja upp þriggja daga hestaferð með það sem á járnum var í Hestamiðstöðinni í Söðulsholti. 

Það var fljótgert.

 Svo var bara að finna daga sem hentuðu með nothæfri veðurspá. Fyrsta dagleiðin Söðulsholt - Hallkelsstaðarhlíð gekk vel fyrir utan hefðbundinn hasar við að koma rekstrinum fyrsta legginn. 


  Dagur eitt. Hrossin neðan  Gerðubergsins farin að róast  eftir starthasarinn.

Við vorum fjögur með hópinn, um 40 hross.  

 Ég, Iðunn og Dóri ásamt Ágústu Rut sem hafði verið við tamningar í Söðulsholti um tíma. 

Önnur dagleiðin norður yfir fjallgarðinn, Hallkelsstaðarhlíð - Bíldhóll gekk enn betur.


  Þarna fann ég götu ofan og austan Heydalsvegar sem ég frétti af daginn fyrir ferðina. Skemmtileg gata en alltof stutt.emoticon

 Veðrið frábært og hrossin farin að slípast í rekstrinum. 

  Þegar spáð hafði verið í veðrið  lá fyrir að kröpp lægð myndi ganga yfir vestanvert landið. Ferðin var sett upp þannig að það yrði sloppið til byggða áður en hún birtist.  
 Þessa daga höfðu veðurfræðingarnir hinsvegar tekið upp á því að flýta henni jafnt og þétt en samt voru enn líkur á að við ættum að ná langleiðina suður af áður en aðalhasarinn byrjaði. 


 Við fórum tímanlega frá Bíldhól. Ágústa búin að yfirgefa okkur en Arnar í Haukatungu kominn í staðinn.

 Riðum gamla þjóðleið sem lá að Litla Langadal. 
  Þaðan yrði síðan riðið suður Flatir  sem leið liggur að Söðulsholti.

  Gatan vestur í L. Langadal var orðin óljós á köflum en Jóel á Bildhóli er m.a. gefið það, að geta sagt til vegar svo skiljist og dugði það okkur prýðilega.
 
  Leiðina suður Flatir þekkti ég hinsvegar eins og handarbakið á mér. Þegar kom að Litla Langadal var ljóst að lægðin góða hafði líka tekið daginn snemma, aðeins byrjað að rigna og veðurhljóð komið í fjallgarðinn. 

 Ég þekkti það að suðaustan áttin er ekki heppilegasta útreiðarveðrið suður Langadalinn og Flatirnar.  Þar sem hún treður sér gegnum skarðið niður dalinn. 

  Það var því allt gert klárt fyrir langan legg.  Fengið sér af nestinu og öflugustu hrossin tekin undir hnakkinn.
 
   Við vorum síðan rétt komin af stað þegar lægðin kom í fangið á okkur, úrhellisrigning og bætti sífellt í vind eftir því sem sunnar dró.  

  Jóel hafði bent okkur á að ef  við  myndum lenda í slæmu suður dalinn væri möguleiki að stoppa hópinn í giljum innst í dalnum vestanverðum.

   Það var  hæfileg fyrsta áning.   Ég mat það hinsvegar þannig að ekki væri viðlit að stoppa hópinn þarna. .

   Reksturinn var ekki á neinni lestarferð á eftir okkur Dóra og spurningin var einfaldlega um það hversu lengi við gætum haldið honum fyrir aftan okkur.
   Það var svo sprautast uppúr Drögunum og suður Flatirnar í sama úrhellinu og hávaða roki. Allt á yfirferð . emoticon  

  Sunnan Flatanna er leiðinda reiðvegur , grýttar götur með Flatnánni en eftir því sem við lækkuðum okkur sló aðeins á veðrið. Þarna náðum við að hægja aðeins á rekstrinum og síðan  að stoppa  vestan árinnar neðan Illagilsins. Þetta er nú ekki hefðbundinn áningastaður  og ekki lögðum við í að reyna að ná hrossum til skipta þó áfanginn væri orðinn óhóflega langur.

   En fljótfarinn var hann.  emoticon

  Þarna kom í ljós að Arnar var alblóðugur í framan. 

  Í sviftingum við að komast af stað hafði klárinn náð að berja hausnum í hann þannig að sprakk fyrir á augnbrún.    

 Þó ég sé sjaldnast með kvíðahnút  í ferðalögum þá velti ég því fyrir mér þarna, hvernig myndi ganga með reksturinn niður með Flatnánni að ármótunum. 
 
 Þar eru frekar ógreiðar götur en allt niður í móti og ljóst að það yrðu engin grið gefin af rekstrinum. 

 En nú dugði ekkert væl bara að drífa sig í hnakkinn og láta vaða . Og þetta slapp til en tæpt var þetta allt emoticon.
 
  Þegar niður var komið, ármótin að baki, ( riðin á harðastökki emoticon  ) og allt fylgdi sem átti að fylgja, andaði ég léttar.

  Fannst eins og nú væru engin vandamál til lengur.  

 Vissi af stað framundan  þar sem ef vel tækist til, yrði hægt að stoppa hópinn og komast á minna þreytt hross. 

  Það gekk eftir , hár árbakki á aðra hliðina og stokkalækur sunnanvið. Þarna tókst að hafa hestaskipti og klára nestið .  Þó úrhellið væri það sama var  veðrið að öðru leiti snöggtum skárra.

  Leggirnir 3 sem eftir voru gengu smurt. 

En Iðunn hefur ekki fengist í hestaferð með mér síðan. emoticon
Flettingar í dag: 205
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 218
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 3166145
Samtals gestir: 452475
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 04:57:37
clockhere