05.05.2015 21:04

300 desibil - hvísl , nú eða ofbeldi .

  Konan var með alveg sérlega þægilega símarödd og kom vel fyrir.

 En það tók mig dálítinn tíma að átta mig á hvað hún vildi. 

  Hún byrjaði á að segjast vera nýbúin að horfa á tamningarmyndband frá mér.

 Þar hefði ég verið með hund eftir tveggja vikna tamningu. 

 Ég spurði einskis en velti fyrir mér hvar hún hefði grafið það upp, því ég hefði trúlega ekki sett inn slíkt band í ár eða eitthvað. 

 Hún spurði svo hvort ég væri alltaf svona lágraddaður í tamningunum ? 

 Nei , ég færi alveg uppí 300 desibil eða álíka ef á þyrfti að halda, en sleppti því að taka það upp svaraði ég glaðhlakkalega.

  Bætti svo við að hundarnir væru ákaflega misjafnir og ég reyndi að finna útúr því hvað virkaði á hvern. 

Þarftu þá að taka í suma eða refsa þeim var næsta spurning ?

  Ég þverneitaði því, stundum þyrfti að nota ákveðnar leiðréttingar en algjör undantekning ef þyrfti að taka í hund.

  Bætti svo við að hvað sem um ræktunina mætti segja, væru hundarnir upp til hópa orðnir mun hlýðnari og þjálli en fyrir nokkrum árum. 

 Konan sagði mér þá að hún ætti ársgamlan hvolp sem hún hefði trú á að gæti orðið eitthvað. Henni hefði verið bent á að fara með hann til manns sem væri góður í tamningum til að fá leiðbeiningar með uppeldið.

 Sér hefði hinsvegar ekkert litist á  þegar til kom.

 Hann sparkaði bara í hundinn sinn þegar hann var eitthvað að sniglast í kringum okkur , sagði hún andaktug, og þegar ég spurði hvernig ætti að venja hvolpinn af því að liggja í taumnum sagði hann mér að rykkja bara í hann.

  Mér leist ekkert á þetta umræðuefni og spurði konuna hvort hvolpurinn væri kominn með áhuga á kindum ?

 Hún lét ekki slá sig útaf laginu, hélt að áhuginn væri kominn og spurði mig síðan hvort ég notaði þessa aðferð til að laga teyminguna. 

Neei, hún virkaði ekki hjá mér, en það væru til nokkrar aðrar sem virkuðu ágætlega , mistímafrekar samt. 

 Þá spurði hún mig að því hvort menn væru yfirleitt hættir að taka í hunda eða leiðrétta þá harkalega.

  Ég var fljótur til svars, enda vissi ég ekkert um það. Það væru menn að temja hunda hringinn í kringum landið, ég þekkti trúlega fæsta þeirra. 

 Hver hefði sína takta og tiktúrur  við þetta og eflaust allir að ná ágætum árangri.

 Ég gæfi mér það hinsvegar að eftir því sem þekking manna á viðfangsefninu ykist breyttust aðferðirnar. 

 Það ætti jafnt við um kennslu á mannfólkinu og hundunum, að pirringur, hávaði og harka væru ekki fljótlegustu aðferðirnar til að koma kennslunni áfram.

  Nú var ég kominn í hálfgerðan fyrirlestrarham en farinn að skynja það að konan var ekki að leita eftir leiðbeiningum við tamninguna. 

 Til að skipta um gír spurði ég því um ættina á hvolpinum . 

Það ,stóð ekki á því og hún var rakin 3 ættliði aftur. Þarna væru allavega tvö góð nöfn á bakvið sagði ég og bætti svo við að stundum dygðu fínu nöfnin lítið, þegar afkomandinn væri kominn í vinnuna.

  Þetta gæti samt verið áhugavert eintak hjá henni.

 Í framhaldinu fjaraði svo samtalið út.

 En ég fékk engan botn í erindið og ekkert minnst á tamningu. emoticon

Með eða án ofbeldis eða hávaða.emoticon
Flettingar í dag: 58
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414619
Samtals gestir: 37273
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 04:01:41
clockhere