26.03.2015 19:41

Hundar, hugarástand og hasarinn.

 Stundum er ég spurður að því hvort hundarnir mínir séu góðir að taka kindur ? 

 Ef ég er spurður augliti til auglitis geri ég mig enn tómlegri til augnanna en vanalega og segist ekki vita það. 

  Sé bara ekki að nota hundana mína í að taka kindur. 

 Eins og þeir sem þekkja mig vita, lendi ég stundum dálítið utarlega á beinum vegi sannleikans ef ég dúndra bara ekki beint útaf honum.
  Enda hafa flestir hundarnir mínir verið ágætir að taka kindur. Sumir meira að segja mjög góðir. 

En það er algjör undantekning að ég noti þá í það.

  Það er nefnilega þannig með hundana eins og mannfólkið að við ákveðið hugarástand tapast allt samband við þá. 

 Fjarskiptasambandið rofnar. 

  Þ.e. ef æsingurinn fer yfir ákveðin mörk tekur eitthvað stjórnlaust við. 

  Hundar sem eru látnir ráðast á kindur til að taka þær, komast trúlega oftar en ekki í slíkt hugarástand. 

 Ekki bætir úr skák að viðstaddir smalar munu oftar en ekki komast í áþekkt hugarástand en það liggur óumdeilt fyrir að hundar skynja mjög vel allar geðsveiflur húsbónda síns og þegar adrenalínið fer að flæða hjá smalanum,, stressast hundurinn óðar upp . 
 Þetta endar síðan oft/stundum í miklum kaos sem ég ætla ekki að lýsa nánar í þetta sinn.


 Lömbum sem stokkið hafa úr safni við innrekstur, smalað aftur í hópinn.


  Mér finnst samt alltaf slæmt að vita af góðum fjárhundum breytast úr öruggum smalahundum í hunda sem ekki er hægt að treysta í sendingum fyrir kindahóp því allt í einu rifjast upp fyrir honum síðasti tökuhasar , taugarnar bresta , hugarástandið fer yfir hættumörkin og hann ræðst á hópinn eða kindina einhversstaðar úti á mörkinni. 

  Í verstu tilfellunum er hann svo skammaður þegar hann skilar sér til baka .

 Skammir sem hann skilur að sjálfsögðu ekkert í og auka við vandamálið. 


 Erfiðum kindum komið í rétt í fjárhundakeppni.


 Rétt er að taka fram að til eru hundar og smalar sem gera þetta án teljandi eða nokkurra vandræða. 

 Hundarnir hafa þá taugar og yfirvegun til að vinna þetta og smalinn heldur ró sinni þó mikið gangi á.


  

 Mér finnst hinsvegar langnotalegast að reka kindurnar á kerru eða til byggða , reyndar allt í lagi að bjóða þeim far á hjólum þegar þær fara  að þreytast. . 

 Það er svo alltaf býsna augljóst þegar ég kemst í tæri við kindur sem hafa  lent í hundatökuhasar að þær brjálast yfirleitt þegar fer að þrengja að þeim við kerru eða aðhald.

 Eitthvað sem rifjast upp þó greindarvísitalan sé ekki há.

Já, já ekki allir sammála þessu en skítt með það.emoticon
Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418092
Samtals gestir: 37970
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 15:57:13
clockhere