18.08.2014 08:06

Að fá 12 af 10 mögulegum .

 
Ég sá hvernig hvolpurinn lækkaði sig að framan og skottið lagðist niður að jörð.


 Hann sá hvorki mig, eigendurna sem héldu í hann né Smala sem hélt utan um kindurnar um 20 m. frá okkur.

 Einblíndi bara á kindurnar. 

  Ungu hjónin sem höfðu komið um nokkurn veg að sýna mér hann voru greinilega mun stressaðri en hvolpurinn yfir því sem nú myndi gerast. 

  Sleppið honum bara lausum sagði ég og gerði í því að vera slakur og áhyggjulaus með það sem framundan væri.

   Ertu ekki vanur að byrja með hvolpana þarna í hringgerðinu spurði konan óstyrk. Hann hefur aldrei komist í kindur fyrr, bætti hún við . 

 Ég játti því, en núna langaði mig að sjá hvernig þessi hundur myndi bera sig að við kindurnar á æfingabrautinni. 
 Bóndinn losaði ólina með semingi af hvolpinum en ég gaf Smala skipun um að reka kindurnar rólega frá okkur.
  Hvolpurinn sem var rétt 8 mán. horfði á eftir kindunum, svo spratt hann á fætur , tók góðan sveig til hægri og framfyrir hópinn og lagðist. 

 Smali var sendur afsíðis og við hin  virtum fyrir okkur stöðuna smástund.  

  Gamalærin í hópnum ákvað nú að kanna kjarkinn hjá þessu fyrirbrigði sem lá þarna og gekk nokkur skref að hvolpinum með ógnandi tilburðum. Hvolpurinn lá grafkyrr og haggaðist ekki. Ærin hikaði aðeins, stappaði niður framfótum og færði sig nær þar til hún átti eftir  1- 2 m. í hvolpinn. 

Þá var eins og eitthvað brysti í hvolpinum ,.

 Hann spratt á fætur og beint framaní kindina með opinn kjaftinn . 

 Síðan lagðist hann aftur nötrandi af æsingi en ærin kom sér fyrir inn í miðjum hópnum sem var kominn á góða siglingu beint til okkar, sem vorum öruggasta skjólið þegar svona villidýr var á svæðinu.

 Hvolpurinn spratt á fætur og fylgdi kindunum eftir . 

 Hann hélt góðri fjarlægð og þegar við slepptum kindunum framhjá okkur tók hann víðan hring til að komast framfyrir þær og halda þeim að okkur. 

 Þegar það tókst lagðist hann niður á ný.

 Það kom undrunarsvipur á hjónin  þegar ég sagði að þetta væri fínt,

 Ég þyrfti ekkert að sjá meira.

 Hann er bara tilbúinn í tamningu bætti ég við án þess að gefa nokkur komment á það sem á undan var gengið. 
 Heldurðu að hann geti orðið nothæfur fjárhundur spurði konan óviss í röddinni. Ég játti því umsvifalaust, trúlega mjög góður en það væri samt ekki hægt að fullyrða neitt fyrr en búið væri að vinna aðeins með hann. 

 Eru þeir vanir að byrja svona, spurði konan vantrúuð í röddinni.  

 Neeei kannski ekki alveg svona sagði ég. 

Þetta er nú reyndar næstbesta byrjun hjá hvolpi sem ég hef séð á ferlinum bætti ég gætilega við þó eitt af grundvallaratriðunum væri að vekja  ekki of miklar væntingar hjá hvolpaeigendum.  

 Var í lagi að hann skyldi ráðast á kindina spurði konan, enn dálítið vantrúuð í röddinni.
 
  Ég játti því með mikilli sannfæringu.  Það sem hann sýndi þar og hvernig hann hætti um leið og kindin lét undan væri ómetanlegur eiginleiki en vantaði því miður í langstærstan hluta þeirra BC sem ég hefði kynnst. 

 Bóndinn sem hafði verið þögull meðan þetta gekk yfir spurði mig nú hvort ég vildi taka hvolpinn í tamningu. Það hafði reyndar verið rætt áður, enda játti ég því umsvifalaust. Hvað þarftu langan tíma til að gera hann nothæfan í vinnu spurði þá bóndinn.
  Ég sagðist þurfa viku til að koma honum vel af stað þannig að þau gætu haldið áfram með hann ef þau vildu temja hann.

 Miðað við það sem ég teldi mig sjá þarna myndi svo mánaðartamning gera hann vel tilbúinn í vinnu, um leið og þau væru búin að læra á hann og ná tökum á honum.

 Og verður hann góður spurði bóndinn ? 

Ég hikaði smá stund, horfði á 8 mán. hvolpinn sem lá rótlaus hinumegin við kindurnar og sá ekkert nema þær.

Svo svaraði ég dræmt að á skalanum 1 - 10 , jaaa myndi ég halda að hann ætti að fá svona 12 .
 
Flettingar í dag: 109
Gestir í dag: 30
Flettingar í gær: 278
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 413463
Samtals gestir: 37132
Tölur uppfærðar: 18.4.2024 11:00:13
clockhere