07.08.2014 21:21

Já,já. Nú er það hundablogg.

  Hundurinn hljóp snuðrandi um gerðið án þess að líta á kindurnar.

 Svo tók hann sig til, reisti skottið og hljóp gjammandi að þeim. Snuðraði síðan aðeins meira og merkti sér eitthvað yst í gerðinu. 

  Hann er ekki hreinræktaður sagði ég. ( Spurði ekki ) .

  Nei nei sagði unga stúlkan , mamma hans er hálfur íslendingur. Samt góður smalahundur sögðu ræktendurnir.

  Pabbinn er svo auðvitað alveg frábær fjárhundur sagði ég.

 Já sagði stúlkan . Hvernig vissirðu það spurði hún svo. 

Nú, foreldrarnir eru alltaf frábærir fjárhundar meðan verið er að selja hvolpana undan þeim sagði ég glaðhlakkalega. 

  Ekki er verið að skrökva um það spurði stúlkan hneyksluð. Ég yppti öxlum. Í sumum tilvikum og síðan er ákaflega misjafnt hvað fólki finnst vera góðir hundar .

   Sumum finnst hundurinn sinn vera afbragðsgóður þegar öðrum finnst að hann eigi ekki að vera með í smalamennskum. 

 Hvernig líst þér á hann spurði stúlkan og leist greinilega ekki alltof vel á þetta umræðuefni. Aðspurð var hún búin að segja mér að hundurinn væri rúmlega tveggja ára.

  Ég horfði spekingslega á hundinn og ákvað að segja henni umbúðarlaust að ég héldi að hann yrði aldrei til nokkurs gagns við kindavinnu, en benti eins og vanalega á að þetta væri nú bara mitt álit. 

 Stúlkan hafði greinilega átt von á einhverju í þessa áttina því hún spurði einskis frekar um hundinn.

   Hún spurði hinsvegar hvort hún væri örugg með gott efni, ef keyptur yrði hreinræktaður Border Collie. 

 Nei, hún væri nú kannski aldrei örugg með gott efni en líkurnar á góðu fjárhundsefni færu ört vaxandi eftir því sem gæði foreldranna væri meiri. 

 Gæti ég kannski lent á einhverjum svona, þó hann væri hreinræktaður spurði stúlkan með vantrúarhreim.
 
 Ég svaraði þessu ekki beint en sagðist vera þeirrar skoðunar að svona u.þ.bil 30 %
 " hreinræktaðra " hunda væri ónothæfir í alvörufjárhunda. 

  Tók síðan fram að á bak við þessa skoðun lægju engar vísindarlegar kannanir. 

 Reyndar hefði ég haldið mig við þessa prósentutölu í fjölda ára og hefði aldrei þorað að hækka hana þó ég væri mun betur inni í " ræktunarstarfinu" nú en áður.

   Ekki dygði að fá alla border collie ræktendur  í  manndrápshug í bakið á mér. emoticon     .

   Nú var stúlkan orðin dálítið ringluð á svipinn sem vonlegt var, enda búið að flækja málið verulega fyrir henni. 

 Ég huggaði hana því með að kannski væru um 60 % + hvolpanna góð eða sæmileg efni og ef hún kynnti sér foreldrana vel eða fyrri got þeirra, þá væru nú líkurnar orðnar nokkuð góðar .

 Og svo óskaði ég henni góðs gengis í hundamálunum. 

 Og nú verður allt vitlaust emoticon .
Flettingar í dag: 42
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414603
Samtals gestir: 37271
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 03:29:28
clockhere