05.05.2014 05:25

Allt að gerast í sveitapólitíkinni + gömul spakmæli.


 Þó ég hafi ekki lagst í sagnfræðina held ég að óhlutbundnar kosningar hafi viðgengist í Eyja- og Miklaholtshreppnum, og forverum hans, frá upphafi kosninga.

 Skemmtilegt kosningaform að mörgu leiti sem getur oft boðið uppá ófyrirséðar niðurstöður.

 En eins og allar kosningar eru þær náttúrulega alltaf eða kannski oftast skemmtilegastar fyrir þá sem vinna þær.


 Þegar talið var upp úr kjörkassanum fyrir tæpum 4 árum kom í ljós að það hafði orðið til listi í sveitarfélaginu.

 Listi þar sem lögð hafði verið vinna í að raða á fólki  frá upphafi til enda,- mesta ágætisfólki að sjálfsögðu.

 Það er að nákvæmlega ekkert sem bannar þetta og þó þessi undirborðslisti hefði afgerandi úrslit í niðurstöðu kosninganna var þetta óumdeilanlega niðurstaða lýðræðislegs kosningaforms. 

 Óþarfi að vera með einhverjar málalengingar um þær.

 Þarna var þó sitthvað á ferðinni sem mér hugnaðist ekki.

Ég hef alltaf haft ímugust á botnlausum sjálfsmetnaði pólitíkusa og hreina skömm á þeim sem eru á augljósan hátt að vasast í málaflokknum  með eiginhagsmuni í huga.

Jafnvel þó þröngur hópur eigi að fá að njóta þess líka.

 Mér fannst dapurlegt að fylgjast með fyrisjáanlegri þróun samstarfsins þar sem leiðir skildu fljótlega .

 Má segja að það hafi verið fullkomnun fáránleikans þegar listaplottararnir fóru í lögregluaðgerðir á dögunum,  gegn fólkinu sem þeir áttu sitt sveitarstjórnarlíf að launa, eða þannig.


 Mamma hafði alltaf á takteinum spakmæli og málshætti um hvaðeina sem upp kom í lífsbaráttunni og sumt  hefur sest að á harða diskinum, þó það hefði mátt vera meira.

 Sum þeirra skildi ég kannski ekki alveg í den en  við ýmis tækifæri kom eitthvað þeirra oft óvænt í  hugann.

 Þeir sem segja A, verða að geta sagt B líka sagði hún oft, þegar það átti við.

 Ég er þeirrar skoðunar að ef menn vilja listakosningar í örsveitarfélagi eins og hér, þá eigi þeir að hafa listann sinn uppi á borðinu með málefnaskrá og markmiðum.

 Horfast í augu við sveitungana og taka létta umræðu um hvert eigi að stefna.

 Síðustu vikurnar hefur svo komið á daginn að nokkrir, - ja kannski bara þónokkrir sveitungar mínir eru sömu skoðunar.

 Ef menn vilji listakosningar, nú þá höfum við bara listakosningar. 

En gerum þetta almennilega.

 Nú er fyrsti listinn búinn að skila inn framboðinu.

Listinn hefur hlotið nafnið  " Betri byggð "  sem gefur til kynna að aðstandendurnir hafa kannski ekki verið alveg  sáttir við vinnubrögðin á kjörtímabilinu.

 Það er m.a. tvennt áhugavert við " Betri byggð " .


Enginn sitjandi sveitarstjórnarmanna finnst á listanum og einungis tveir sem verma listann hafa setið í sveitarstjórn áður. Þeir skipa fyrsta og síðasta sætið.

 Síðan  eiga öll þau sem skipa efstu sætin, börn í leik eða grunnskólanum í Laugargerði.




 Efstu frá v. Guðbjörg, Laugargerði 7 s. Áslaug, Lágafelli 6 .s. Halldór, Hrossholti 5. s. Atli Sveinn, Dalsmynni 2.s. Eggert, Hofstöðum 1. s. Katrín, M. Borg 3. s. Herdís , Kolviðarnesi 4.s.


 Grunnskólinn er algjörlega óumdeilanlega kjölfesta og fjöregg hvers byggðalags.

Þessi hópur er tilbúinn að takast á við það m.a. að reka áfram skóla á svæðinu.

Þau eru þeirrar skoðunar að komi til breytinga á þessum málaflokk eigi að marka nýja stefnu í nánu samstarfi allra þeirra sem málið varðar.

Með upplýstum foreldra og íbúafundum.

 Ekkert þeirra mun fara að leika einleik með því t.d. að hringja í bæjarráðsmenn í nærliggjandi sveitarfélögum og panta boðsbréf um " samstarf " í skólamálum.

 Því síður skella sér í " skoðunarferð " í nágrannaskóla án nokkurrar umræðu eða umboðs félaga sinna í sveitarstjórn eða annarra.

Að sjálfsögðu ekkert , nákvæmlega ekkert sem bannar þetta, en þetta eru ekki skynsamleg fyrstu skref í umræðum í málaflokknum.

 Reyndar svo langt frá því að vera skynsamleg að ef ég væri ekki þetta einstaklega 
" hógværa og orðprúða prúðmenni"  sem ég er, myndi ég kalla þetta heimskulegt.

 Menn geta haft, eða hafa eðli málsins samkvæmt  mismunandi skoðanir á því hvernig best er að haga þessum málum.

 Enda snúast málefni grunn og leikskóla hvers samfélags um það sem öllum er dýrmætast.

 Þess vegna er þýðingarmikið að ná sem breiðastri samstöðu um það sem verið er að gera.

 Ekki að vinna undir  formerkjunum.   " Við ráðum þessu. "


 Nú er verið að vinna í öðrum framboðum sem gætu orðið tvö a.m.k.

 Ekki er ólíklegt og reyndar vonandi þegar landi er náð hinumegin kosninga að menn detti í gamla sveitagírinn, snúi bökum saman og vinni sem mest þeir mega að hagsmunum íbúanna .


Allavega  ljóst að nú stefnir í glænýtt kosningaform í sveitinni.


 Svo er bara að vona að allir komist í gegnum það á málefnalegu nótunum.

Og virði þær lýðræðislegu reglur sem vinna á eftir, bæði lagalegu og siðferðilegu.

Flettingar í dag: 795
Gestir í dag: 80
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 414443
Samtals gestir: 37247
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 17:56:55
clockhere