26.01.2014 08:07

Afskriftirnar !

 Ég horfði ýmist íhugandi tíkina sem sótti að kindunum fyrir framan mig, eða konuna við hliðina á mér.

 Mér leist miklum mun betur á konuna.

 Hún hafði hringt í mig nokkrum dögum áður, sagðist vera komin í hálfgerð vandræði með tík sem hún var að temja.

 Hún byggi í þéttbýli en væri úr sveit, færi þangað í leitir  og ætlaði að koma sér upp góðu smaladýri.

 Tíkin hélt sig alveg utaní kindunum og sótti ákaft í að bíta aftaní þær.  Skellti skollaeyrum við umvöndunum eigandans , í orðsins fyllstu merkingu.


 Aðspurð vildi konan nú ekki meina að tíkin hefði verið svona frá upphafi. Kannski aðeins meira frá þeim og ekki svona æst,  en kindurnar verið óþjálar og svona væri þetta orðið.


 Eftir að hafa reynt að koma dýrinu í eðlilegan vinnugír í nokkurn tíma setti ég upp gáfusvipinn sem notaður er í " faglegu " ráðgjöfinni.


 Niðurstaðan var sú að ég gæti ekki metið hvort þarna vantað þessi smalagen sem ég vildi hafa í tíkinni, eða hvort þarna væru áunnin vandamál sem þá yrði hugsanlega hægt að vinna sig útúr.

  Áhuginn væri þarna og kannski nægur kjarkur ef hægt væri að beina honum að réttum enda á kindunum.

 Þar sem hluti af þessum pakka hjá konunni var að hún vildi temja sinn hund sjálf, varð niðurstaðan sú að hún kæmi nokkrum sinnum í einkatíma hjá mér til að sjá hvort hægt væri að snúa tíkinni af villu síns vegar.

Það yrði samt hellingsvinna og barningur en eigandanum óx það ekkert í augum.


 Eftir að hafa heimsótt mig í  2 vikur, 6 - 7 skipti var  búið að ná tíkinni frá kindunum og stoppa skæruliðaárásirnar svona að mestu. Konan var orðin full bjartsýni og ég hafði ekki hjarta í mér til þess að sýna einhverja neikvæðni í málinu enda ekki spurður álits á þróuninni eða beðinn um framtíðarspá.


 Nú liðu nokkrar vikur þartil konan hringir í mig til að ræða við mig um stöðu mála.


Hún hafði aðgang að kindum nærri sér og hafði verið dugleg að halda áfram tamningunni en gekk ekki vel.


 Hélt að tíkin væri komin í nákvæmlega sama farið og þegar hún kom til mín í upphafi.


 Eftir að hafa upplýst um stöðu mála spurði hún mig umbúðarlaust hvað ég myndi gera við tíkina ef ÉG ætti hana.


 Þetta fannst mér vond spurning.

 Ég fór hálf vandræðalegur að útskýra það að ég gerði nú gríðarlegar kröfur til hundanna minn, væri að nota þá í erfið verkefni sem ég yrði að treysta þeim fyllilega í.

 Þessi týpa sem hún væri með hentaði nú kannski ekki í það,  þó tækist að temja hana.


Ég vil líka eiga þannig hund sagði konan og var orðin mjög ákveðin í röddinni, er ekki útilokað að gera tíkina þannig ?


 Ég taldi nú kannski engar líkur á að það tækist, en benti á að það gengi enginn að neinu vísu í gæðunum hjá BC ræktendum.


 Ég afskrifa hana þá bara sagði konan og var nú  orðin óhugnanlega ákveðin í röddinni.


 Mér sýndist að mínum ráðgjafastörfum væri lokið í bili og slitum við talinu.


Síðan eru liðin tvö ár og ég hef ekkert heyrt frá konunni,sem er í sjálfu sér gott mál.


 Trúlega hefur hún ákveðið að afskrifa mig um leið og tíkina sína.


En sem betur fer með öðrum hætti. emoticon

Flettingar í dag: 321
Gestir í dag: 26
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 413051
Samtals gestir: 37056
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 21:17:12
clockhere