22.12.2012 20:58

Jólagjöfin þetta árið!!!

 Góðir hlutir gerast hægt.

 Þó stressleysið í framkvæmdum Dalsmynnisbænda sé orðið algjört er samt verið að vinna sig niður forgangslistann hægt og sígandi.

 Þó gjafaaðstaðan eins og hún hefur verið síðan féð var tekið inn hefði þótt afbragðsfín fyrir ekki svo löngu er hún alls ótæk í dag.



 Þegar átti að fjárfesta í rúlluklónni neðan í hlaupaköttinn var hún í fyrsta lagi ekki til.
Í öðru lagi átti hún að kosta 60.000 kall.

 Þetta mál fór ekki einu sinni í nefnd , heldur var ákveðið að smíða rúlluklóna þegar tími gæfist.

 Nú hefur hjólbörunum verið lagt í bili og tæknin verið tekin í vinnu.

Fyrir alla meðaljóna í sauðfjárbúskap er þessi tækni velþekkt svo þeir þurfa ekki að lesa lengra. Þið hin sem haldið að heyið sé borið í fanginu fram á jöturnar ættuð að halda lestrinum áfram.



 Það er komið með rúlluna inn í vinnuaðstöðuna og skorið aðeins ofan í hana með rúlluhnífnum.



 Rúlluklóin góða ( þessi a la Atli Sveinn) er sett utanum um belginn á henni þar sem hún læsir sig fasta við hífingu.
 Hlaupakötturinn/talían kemur henni síðan í gjafagrindina þar sem plast og net er fjarlægt og þar sem búið er að skera ofaní rúlluna er auðvelt að jafna henni út í grindinni.



 Síðan eru borðin í hliðum grindarinnar hækkuð eftir því sem heyið lækkar.



 Þessi mynd er tekin 4 tímum eftir áfyllinguna í dag og efsta fjölin komin upp að vísu óþarflega snemma. Nú er átið farið að jafna sig og gjafagrindin mun ekki verða fullsetin aftur fyrr en næst verður gefið. Kannski seint á jóladag eða annan í jólum.

Já , þetta var semsagt jólagjöfin í ár. 


 
Flettingar í dag: 446
Gestir í dag: 66
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 414094
Samtals gestir: 37233
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 13:20:24
clockhere