19.07.2012 23:41

Glötuð blogg og glapstigar.

 Oft kemur fyrir þegar eitthvað snilldarbloggið er svo til fullmótað á harða diskinum í hausnum á mér að ég þarf að finna mynd eða fletta uppá eldra bloggi í heimildarleit.

 Myndaalbúmin í tölvunni eru nú frekar óskipulögð og að mestu raðað eftir tímaskeiðum.

Sama má segja um bloggin sem eru eins og þið vitið. skipulagslaus vaðall um ótrúlegustu hluti.

Og þá gerist það hvað eftir annað að ég gleymi mér í myndum eða bloggum og fyrr en varir er kominn háttatíma og snilldarbloggið góða gleymt og grafið og sést aldrei né heyrist,  eins og reyndar svo ótalmargt annað sem hverfur í fallvaltleik lífsins í daglega amstrinu. ( hátíðlegt hjá mér.)

 Svona fór þetta í kvöld svo ég ákvað að smella hér inn smásýnishorni af þvi sem glapti mig.



 Þessi fossaröð er innst á Núpudalnum  í Núpánni sem á upptök sín í dalverpi innan gilsins hér, Leirdal. Á hægri hönd er Moldarmúlinn sem liggur uppað Skyrtunnu.



 Núpáin rennur reyndar ofaní þessu gili  og er þá komin nokkuð hundruð m. neðar,Hér sést í munnann á Geithelli en af honum dregur talsvert landsvæði þarna nafn, Geithellistungur. Þær liggja frá Núpánni að Svörtufjöllum og Skyrtunnu.



 Þessi móbergsklettur heitir því sérstaka nafni Grenstrípur. Þegar ég fór að fara þarna fyrst um í leitum smágutti, var stóri bróðir sem nú er reyndar landsþekktur sem yfirmúrari Íslands, Gösli sjálfur, leiðsögumaður minn og örnefnakennari. Þegar ég innt hann eftir tilurð örnefnanna sagði hann mér gjarnan miklar sögur tengdar örnefnunum og kennileitunum. Ég komst síðar að því að örnefnin voru oftast rétt . En sögurnar voru samt góðar.


 Þessi landamerkjavarða uppi á Dalsmynnisfellinu er á milli Þverár og Dalsmynnis. Hér er horft til suðurs eftir landamerkjunum og þegar ég horfði á myndina áðan, sá ég nú að eðlilegast væri að línan endaði í Eldborginni.



 Hér er horft eftir landamerkjunum í hina áttina. Skyrtunna til v. Svörtufjöll t.h.



 Hér er horft í sv. á norðurenda Hafurfellsins. Þríhnjúkar á h. hönd þó vanti þriðja hnjúkinn á myndina.
Næst á myndinni er suðurhlið Grenstríps sem fyrr er nefndur.

Svona gæti ég haldið endalaust áfram.
Flettingar í dag: 165
Gestir í dag: 24
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418012
Samtals gestir: 37954
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 10:24:08
clockhere