27.05.2012 08:05

V.V.V.sýkin,hvítasunnuhvellur og sauðburðarlok.

 Það hefur trúlega verið uppúr 1965 sem vetrarrúningur á fénu fór að ryðja sér til rúms.

Áður var oftast smalað til rúnings seinnipart júní á þessu svæði hér enda fé komið um öll fjöll á þeim tíma.
 Vetrarrúningurinn var tekinn bratt að hætti íslendinga og var oft verið að alrýja fé frameftir aprílmánuði. Þá var fóðrun , aðbúnaður og heybirgðir með öðrum hætti en nú og oft voru ærnar ansi strípaðar þegar kom að því að setja þær út með lömbunum.

 Það var þá sem VVV veikin átti til að stinga sér niður ef gerði slæm rigningar eða kuldaáhlaup.

V.V.V. útleggst sem " vanhöld vegna vetrarrúnings."

Ég minnist þess eftir eitt hvitasunnuáhlaupið, sat einn sveitunginn uppi með nokkra tugi heimalinga.

Margir aðlöguðu sig svo veðráttunni eins og gerst hefur gegnum aldirna og skildu eftir hluta reyfisins á kindinni (a.m.k. því eldra) sem skipti svo sköpum þegar illa voraði.

 Stórrigningin sem gekk yfir síðasta sólarhring hefði gengið nærri einhverri ánni á þessum tíma þó nú slyppi þetta trúlega víðast fyrir horn.


 Þessar báru sig nokkuð vel í gærmorgun og þær best settu ullarlega héldu sér við beitina eins og ekkert væri að veðrinu.



Það var skýlt sér á bakvið það sem nærtækast var enda féð mislífsreynt í að finna á sér veður og verjast því.



Þessi gamla og útsjónarsama ær var bara í fínum málum með lömbin sín.

 Nú er brostin á sól og hiti og ekki annað að sjá í kortunum.
 Vegna veðurspár hefur ekkert verið sett út hér í nokkra daga svo nú verður tekið til hendinni í dag og morgun og allt sett út sem hæft er í það.

Tvær ær eru óbornar, önnur á tal síðast í júní, hin á nokkra daga eftir.

Og ég sem er orðinn svefnléttur með aldrinum og dugar oftast 5- 6 tíma svefn er búinn að sofa a.m.k. 12 klst. síðasta sólarhringinn.

Gæti hugsanlega átt aðeins meira inni hjá  Óla Lokbrá  eftir síðasta mánuðinn


Flettingar í dag: 9
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 417856
Samtals gestir: 37931
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 01:08:47
clockhere