22.11.2011 21:49

Að rækta garðinn sinn. - nú eða búpeninginn.


   Í sveitinni þurfa ótal hlutir að ganga upp svo allt leiki í lyndi.

 Einn af grunnþáttunum er ræktunin sem er ákaflega margbreytileg, allt frá hundum til akuryrkju.

 Í gömlu góðu dagana tók maður þessu létt í sauðfjárræktinni. Setti á undan uppáhaldskindunum og eftir allskonar huglægu mati, litum og nefndu það bara.

 Svo tók alvaran við og sett voru allskonar mörk, lágmörk á plúsana og hámörk á mínusa þess sem líflömbin þurtu að hafa til brunns að bera. Í den var nú kjötmatið svo einfaldara og látlausara,  enda  datt engum í hug að éta fitulaust kjöt og annan óþverra sem menn jukka í sig í dag með tilheyrandi heilsuleysi.

 Ein af fyrstu kröfum bóndans við ásetninginn var að ekki yrði settur á einlembingur.
Þetta var gert að slíku grundvallaratriði að það er fyrst nú, síðustu árin að einlembingar eru skoðaðir við ásetninginn enda fljótlegt verk.
Það er svo gaman að skjóta því inn að nú er rætt i fullri alvöru um að hætta að setja á fleirlembinga. (þrí og fjórleminga.)



 Þegar tölvutæknin gat farið að meta kindurnar saman á búinu var farin að færast harka í bóndann ( og lífsbaráttuna)  og lömb þeirra sem voru undir meðaltali í afurðum voru sett út í kuldann.

 Sem betur fer er fjárbóndinn í mun betri stöðu en kúabóndinn við að ná nokkuð skjótum framförum í ræktuninn þar sem hann setur yfirleitt ekki á nema 20 - 30 % gimbranna.

 Kúabóndinn býr við afar þröngan kost í þessum efnum vegna lágs meðalaldurs kúnna og margir verða að setja á hverja kvígu hvort sem móðirin er nothæf eða ekki.
 Sem betur fer hafa  stórstígar framfarir í fóðrun og meðferð kúnna bjargað þvi sem bjargað verður í afkomunni þar. 



Til að særa ekki stolt kollleka  minna í landnámskúatrúflokknum ræði ég þetta nú ekki frekar.

 Sauðfjárræktin er hinsvegar orðin bráðskemmtilegt áhugamál hjá ótrúlegum fjölda fólks og framfarirnar miklar frá ári til árs. Styttist  hratt í að maður þurfi að nota smjör með kótelettunum.

 Á dögunum var sest við tölvuna og hún látin raða upp ám búsins eftir kjötgæðum lambanna( gerð og fita). Síðan var skoðuð frjósemi og mjólkurlagni.

 Þær 25 ær sem komu best út úr þessu, voru síðan samstilltar og munu verða sæddar með úrvalshrútum á öðru gangmáli eftir samstillinguna.



 Þær láta ekki mikið yfir sér þessar toppær búsins, líkar húsbóndanum í fádæma hógværð og lítillæti.

Best að hafa ekki fleiri orð um það.

 
 
Flettingar í dag: 190
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403404
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:52:32
clockhere