26.02.2010 23:47

Fjöllin, fjórhjólin og við landníðingarnir.

   Nú eins og stundum áður hefur lifnað við umræðan um landverndina og landspjöllin.

 Eins og oftast áður á hún fullan rétt á sér, sérstaklega þegar öfgaliðið í báðar áttir hefur hægt um sig.

 Nú sem fyrr vill þessi umræða þó verða dálítið einsleit.

Á þvælingi mínum um fósturjörðina hef ég upplifað margvíslega meðferð á landinu.
Ég hef farið gamlar  þjóðleiðir milli bæja, sveita og landshluta. Þjóðleiðir sem voru fjölfarnar vel fram á síðustu öld.

 Sem betur fer er Kolbeinsdalurinn ekki riðinn með þessum látum nema einu sinni á ári, annars myndi hann láta á sjá.

 Þær leiðir sem sem eru alveg dottnar útúr notkun í dag eru nánast horfnar að mestu eða öllu leiti.
Það er ánægjulegt að upplifa það að flest  sár gróa um síðir.

Hinar sem hafa lent í því að verða tískuleiðir hestamanna eða göngufólks eru hinsvegar rækilega sýnilegar. Þar er ekki erfitt að finna jarðrask sem leiðir til til úrrennslis og landspillingar.

 Hestar og göngufólk hafa sömu viðleitni og torfærugengin á vélknúna dótinu, að leita uppúr djúpum förum og slarkinu þegar það myndast og breikka þannig slóðina.

 Það er orðin heil atvinnugrein að finna og selja nýjar gönguleiðir.Þetta er umhverfisvænn ferðamáti en setur engu að síður sín merki á landið.

 Þetta er meira draumatækið sagði bóndinn sem ég var staddur á hlaðinu hjá fyrir um 20 árum.
Ég held ég gæti ekki búið án þess í dag.

 Þau voru farin að reskjast hjónin, bjuggu með nokkur hundruð kindur og börnin farin að heiman.

Við vorum að virða fyrir okkur fjórhjólið hans.


Þetta er að vísu töluvert flottara enda 20 árum yngra og notagildið hefur líka margfaldast á þessum árum.

 Landverndin er margslungin og stundum verður erfitt að fóta sig í rökunum þegar allt er skoðað.



 Hér sést yfir hluta niðurlandsins í Dalsmynni og ljóst að hér er ekki lengur um ósnortið land að ræða. Þó ég sé enginn spámaður gæti ég trúað að ekki líði margir áratugir þar til þetta land verði allt nýtt í einhverskonar matvælaframleiðslu.

 Um helmingur jarðarinnar er fjalllendi sem er nýtt til beitar.

Fyrir tuttugu árum þurfti 6-8 manns að smala fjallið og það tók mann heilu dagana að hreinsa upp eftirlegukindurnar á þessum örafrétti.

 Nú eru ekki 6-8 manns í boði og fjallið er smalað af 2-3 á mun skemmri tíma.
Og eftirleitin er leikur einn.


Hér er ekið á fjallaslóða Dalsmynnis sem hvorki er á aðalskipulagi né kortum slóðavinafélagsins.

Það var um 1987 sem fyrsta flóðbylgjan af fjórhjólunum skall yfir og það voru fyrst og fremst bændurnir sem tóku þessum vinnutækjum fagnandi á þeim tíma.

  Á þessum árum síðan, hafa þessi tæki sett sitt mark á fjallendið þar sem þau hafa verið notuð.

Það eru komnar slóðir þar sem aðalleiðirnar liggja í leitir, girðingarviðhald eða grenjavinnslu.

Það er nær undantekningarlaust sameiginlegt með öllum þessum slóðum að ekki er um gróðurrof að ræða heldur troðningur sem myndast eftir þessar fáu ferðir sem farnar eru árlega um landið.

 Utan þessara aðalslóða er erfitt að merkja ummerki
eftir fjórhjólin sem stíga létt til jarðar.

 
        Kolólegur utanvegarakstur á dráttarvél eða eðlilegar girðingarframkvæmdir?
Hér er verið að koma upp skógræktargirðingu og það hefði verið auðvelt að safna saman mannskap, bera út efnið og gera þetta þannig að ekkert sæist á landinu. Það hefði hinsvegar hleypt kostnaðinum uppúr öllu valdi.
Eftir nokkur ár verður þetta komið í kaf í sinu og engin verksummerki
eftir vélaumferð sjáanleg.

 Tvöfeldnin í umræðunni er sú að engin athugasemd er við að umbylta öllu niðurlandinu í ræktun og matvælaframleiðslu.

 Troðið gras í  fjórhjólaslóðum um fjalllendið er hinsvegar stórglæpur í huga sístækkandi hóps  " umhverfissinna".

Já. það er vandlifað í henni veröld
.emoticon



 

 

Flettingar í dag: 14
Gestir í dag: 2
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 412744
Samtals gestir: 37032
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 08:16:30
clockhere