27.09.2009 19:29

Laufskálarétt.


 Það var vetrarlegt á leiðinni norður á föstudaginn og keyrt í krapaslabbi bæði á Holtavörðuheiðinni og Þverárfjallinu.

 Eftir að hafa komið hrossunum í öruggar hendur Vésteins í Hofstaðarseli var brunað á sölusýningu á Varmalæk.

 Þar bárum við Einar okkur mannalega, ræstum tamningarmann Hestamiðstöðvarinnar út og létum hann koma, prófa og kommenta á nokkra reiðhesta sem okkur leist á.

 Það er svo spurning hvernig þeim málum lyktar.

 Skemmtunin á Svaðastöðum um  kvöldið, stóð nú ekki undir væntingum en gaman að hitta kunningjana sem maður var sífellt að rekast á þarna.

 Á laugardagsmorguninn stóð til að fara í smölunina á Kolbeinsdalinn en okkur leist ekki á veðrið svo í stað þess að ríða skjálfandi af stað var dólað niður á Krók í kaffi og rólegheit.

 Þegar við komum með hrossin fram að rétt, var allt að fyllast af bílum og fólki en góða veðrið sem átti fara að bresta á kom ekki. 

 Og veðrið var nú hreint ekki mjög gott, kalsaveður og snjókoma.


 En svona leit þetta út milli élja og eins og Pálmi í Garðakoti sagði var þetta bara gleði..

 Hrossin sem stóð eftir þegar kom að skönnun/ töfludrætti voru flest jörp og brún.
Skrítið. En ég held að allt hafi gengið út áður en lauk.


 Toppurinn á deginum er reksturinn heim að Hofstaðaseli og veislan í vélageymslunni þar um kvöldið

Ég hafði sagt Skagfirðingunum það að veðrið myndi snarbatna um leið og ég kæmist í hnakkinn. Það gekk síðan eftir.

 Stóðið sótti grimmt á okkur í forreiðinni og erfitt að halda því á skikkanlegri ferð.

 Bára er ekki mjög slök í svona hasar svo ég var oftast vel á undan til að þurfa ekki að slást við hana. Hún reif síðan undan framfæti og þá var gott að eiga Þrym að, uppi á kerru. Hann fílaði þetta svo allt í botn og ég hef aldrei farið á hann jafn skemmtilegan fyrr.


 Bílalestin sem var viðhangandi reksturinn var löng og  þolinmæðisverk að keyra um Hjaltadalinn þennan laugardagseftirmiðdag.



 Þarna er bóndinn að setja veisluna en þarna mæta tugir manns allt frá rollubónda úr Grímsey til hestamanna vestan af Snæfellsnesi.


 Allt að verða klárt í borðhaldið.



 Tveir fulltrúar Hestamiðstöðvarinnar stilla sér upp, annar úr bænum, hinn frá Þýskalandi.



 Tina og Jessica nýkomnar frá Svíaveldi og Iðunn og Dóri hin kampakátustu.

 Ætli verði ekki að setja einhvern kvóta á þetta Hestamiðstöðvarlið ef það á ekki að yfirtaka veisluna miklu.

 Það var síðan kíkt við á ballinu, á leið í svefnstað og rétt að taka fram að allar sögur af gistingu okkar félaganna í fangaklefum þeirra Skagfirðinga eru stórlega ýktar.



Og svona var umhorfs á Hofsósi í morgunsárið á sunnudeginum..

En  eftirá að hyggja held ég að veðrið hafi bara verið fínt í Skagafirðinum þessa helgina.emoticon 

 Eins og alltaf.emoticon


Flettingar í dag: 245
Gestir í dag: 40
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414806
Samtals gestir: 37302
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 15:44:15
clockhere