27.02.2009 09:09

Hefðbundinn dagur í sveitinni.


    Eftir að hafa nuddað stýrurnar er byrjað á að hleypa hundunum út. Þar fá þeir 10 -15 mín. áður en tveir þeirra koma aftur inn en hinir 3 fylgja með út í gegningarna. Það eru 5 hundar á bænum eins og er, en verða 4 fljótlega. Reyndar hefur ekki verið ákveðið hvort stefnt verði að goti á árinu.

  Mjaltirnar hefjast svo rétt fyrir kl.7.

 Eldri bóndinn byrjar mjaltirnar í gryfjunni en sá yngri smalar kúnum í biðplássið, snurfusar básana,sáldrar  í þá spæni og mætir síðan í mjaltabásinn. 


  Það eru oftast mikil rólegheit í gangi í mjaltabásnum, bæði á bændum og kúm.
Akkúrat núna er engin lyfjameðhöndlun í gangi sem er alltof sjaldgæft og engin nýborin til að mjólka sér.
 Og þar sem mjöltunarhæfileikar okkar ástkæra landnámsstofns er algjörlega laus við alla samræmingu njótum við bændurnir þess, að í hverju holli eru oftast kýr sem eru fastmjólka, mismjólkast eða eitthvað þessháttar.Nokkur hluti kúnna er semsagt eins og alvörukýr eiga að vera og mjólkast  á nokkrum mínútum, meðan hinar þurfa allt uppí korter til að koma frá sér nytinni.



  Þetta er náttúrulega í fínu lagi, því við hér á skerinu vitum að svona á þetta að vera og tíminn er afstæður.
 Yngri bóndinn stingur síðan af  þegar fer að líða á mjaltirnar til að gefa kálfum, tékka af kjarnfóðrið o.sv.frv.

  Það fer síðan hlutfallslega mikill tími í að ganga frá og þrífa  sem segir okkur að búið þurfi að vera talsvert stærra ef gæta á að hagkvæmninni.
 Þó reynt sé að jafna framleiðslunni nokkuð á árið er framleiðslutoppurinn á þessum árstíma og dagsframleiðslan er að slá vel yfir 800 lítrana.

  Mjöltunum er yfirleitt lokið uppúr hálfníu og þar með morgunverkum í fjósi ef eitthvað sérstakt er ekki í gangi.
 Heyið er gefið í heilum rúllum, fjórum í senn. Sú gjöf er að duga í um 3 daga og er reynt að stilla heygjöfina á fyrripart dags. Það tekst ekki nærri alltaf.

  Að loknum fjósverkum er gefið í gamla fjósið. Þar eru kvígur í uppeldi og lömb og veturgamlar ær í fyrrverandi fjóshlöðu.
 Í flatgryfju eru síðan fullorðnu ærnar að fá rúllu tvisvar til þrisvar í viku. Traktor er notaður til að koma henni í gjafagrind og skera hana þar.



   Maður er því kominn í morgunkaffið og fréttirnar í tölvunni uppúr níu. Hinn endinn á deginum byrjar síðan í öfugri röð u.þ.b 15 mín. yfir kl 5. Gjafir í gamla fjósinu og síðan fjósverk sem oftast er lokið uppúr kl. 7.  Burður, veikindi á kúm og ótalmargt uppáfallandi breytir þó þessum tímasetningum oft.  Tíminn á milli mála er svo skipulagður með ýmsum hætti. Hann er þó opnastur fyrir ýmsum möguleikum yfir miðjan veturinn  en vor, sumar og haust, er þessi tími sjaldnast nógu langur fyrir tilfallandi verkefni.

  Þrátt fyrir að hér séu tvær fjölskyldur með reksturinn hefur ekki verið komið á ákveðnum skiptum á fríhelgum og frídögum. Þau mál eru leyst jafnóðum eftir þörfum og lítið spáð í hvort á einhvern hallar í þeim málaflokk.

  Og Íslendingar og Norsarar eru svo farnir að skiptast á seðlabankastjórum af miklum móð.

 Nú er það spurning um viðskiptajöfnuðinn.emoticon 

  

   


Flettingar í dag: 111
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 417958
Samtals gestir: 37949
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 07:59:17
clockhere