28.01.2009 23:23

Gúrúinn minn, og kreppan er leyst.



   Gúrúinn minn sem hringdi í mig í kvöld, er ekki sá munaðarlausi sem ég var að vitna í um daginn.

    Þessi er einn af þessum gegnheilu framsóknarmönnum sem bregður hvorki við sár né bana ef því er að skipta.

    Hann sagði mér það í óspurðum fréttum að hann væri með lausn á öllum vandræðunum.

  Ríkið ætti nú að einhenda sér, nú eða tvíhenda sér í það að taka alla lífeyrisjóði landsins yfir,  rétt eins og galtóma bankana. Eignir lífeyrissjóðanna myndu svo duga til að borga upp allar skuldir landsins og gott betur.
  Þó nú styttist óðfluga í að ég komist á aldur, leist mér ágætlega á þetta , enda lífeyririnn sem beið mín hjá mínu stéttarfélagi ekki til þess fallinn að láta mig hlakka til elliáranna. Ég benti honum þó á, að þetta gæti farið illa með suma og hafði þá í huga aflagða stjórnmálamenn, sérstaklega  þá  sem stendur nú til að hrekja úr öruggum vígum sínum og gera atvinnulausa.
   
 Gúrúinn blés þessar mótbárur útaf borðinu. Í framhaldinu myndi ríkið að sjálfsögðu annast eftirlaunapakkann og það yrði gert með jöfnum greiðslum til ALLRA.  Ég fengi jafnmikið og Dabbi, eða jafnlítið réttara sagt. 

  Þessu er hér með komið á framfæri við þá sem nú eru að taka við stjórnartaumunum.

   Hann kvað svo fast að orði,þegar að útskolunin úr Seðlabankanum barst í tal og mér fannst illa farið með peninga, að splæsa 200 millum í það verk. Hann fullyrti að væri sú langbesta fjárfesting sem væri í spilunum í dag, og ef þessi peningur hefði verið settur í verkið fyrir nokkrum misserum hefðum við séð ævintýralegri ávöxtun en svikumyllugreifarnir hefðu séð í sínum villtustu draumum.

  Ég óskaði honum svo auðvitað til hamingju með erfðaprins þeirra framsóknarmanna sem vill ólmur hasla sér völl í fásinninu hér í NV kjördæmi.  Ég lét þó í ljósi nokkrar áhyggjur af skoðunum kandidatsins á ESB inngöngunni.

Honum er þá illa í ætt skotið ef hann getur ekki talað sig frá því, sagði gúrúinn en var greinilega ekkert áfjáður í að lýsa nánar skoðunum sínum á því máli.

Nú er bara að bíða eftir að næsti gúrú hringi, í leit að góðum hlustanda.emoticon
Flettingar í dag: 399
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 2103
Gestir í gær: 503
Samtals flettingar: 417518
Samtals gestir: 37879
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 23:20:10
clockhere