27.11.2008 20:21

Mjaltabásinn og Remfló


  Snillingarnir frá Remfló mættu hér í gær í árlegt eftirlit á mjaltabásnum.

 Þar sem hann er orðinn fjögurra ára var þetta aðeins meiri yfirhalning en undanfarin ár og mjöltum seinkaði um klukkutíma fyrir vikið. Það má segja að básinn hafi gengið þegjandi og hljóðalaust þessi ár og gerir vonandi áfram því eðli málsins samkvæmt gengur ekki að hann sé með einhverjar uppákomur  dags daglega.



 Nú mættu nýir menn frá nýjum eiganda, því Jötunn Vélar á Selfossi keyptu fyrirtækið og nú er það flutt í húsnæði Jötunn Véla,  og er að auka vöruúrvalið hröðum skrefum.
Meðal annars skilst mér, að nú geti ég fljótlega farið inná netverslunina þeirra og verslað mér þurrfóður fyrir hundana með frírri heimsendingu.


  Og þessi framleiðslugræja hér er að mjólka yfir 40 l. á dag. Hún heitir Randalín frá Álftavatni og er ekki að spyrja að þeim Snæfellsbæingum.

  Hinsvegar er að fara fyrir henni eins og flestum íslenskum kynsystrum hennar sem komast í góða nyt, að júgrin eru ekki gerð fyrir þessi afköst, slitna niður og þetta endar síðan með allskonar skelfingum fyrir kúna og bóndann.

En nú er það ekki landnámskúin sem veldur andvökunóttum undirritaðs heldur íslenska krónan sem verður aldrei treystandi sem alvörugjaldmiðli framar.emoticon




Flettingar í dag: 212
Gestir í dag: 33
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418059
Samtals gestir: 37963
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 13:57:50
clockhere