28.06.2008 21:26

Fyrsta sláttuáfanga lokið.



   Það tókst að koma öllu í plast í gærkvöld og nú verður smá pása( stutt) í heyskap þegar verður búið að koma rúllunum heim. Það er ekki hlaupið að því,  vegna umferðarþungans sem er hér um helgar. Þessvegna verður að sæta lagi fyrripart dags, sérstaklega með það sem flutt er hér neðan af túnunum því annars getur orðið löng bið eftir lagi að komast þvert yfir þjóðveginn. Kýrnar þurfa líka að þvera þjóðveginn á leið í daglega beit . Stundum hvarflaði að manni að halda þeim heima um helgarnar en nú er augunum bara lokað og hliðið opnað, svo er bílstjórunum bara veifað kankvíslega þegar sú síðasta er sloppin yfir. Það tekur nefnilega smástund fyrir 45 kýr að lesta sig yfir og ég get fullvissað ykkur um það, að þær eru ekkert að flýta sér blessaðar.
  Og blessaðir hundarnir eru að sjálfsögðu í stöðugri lífshættu en hér gerir enginn neitt nema með aðstoð þeirra.
  Það má segja þessum taugaveikluðu og stressuðu ökumönnum til hróss að 99 % þeirra láta þetta yfir sig ganga möglunarlaust og smáfólkið fær þarna kærkominn bónus á helgarferðina. Bónusinn sem bílstjórarnir fá getur hinsvegar orðið öllu verri , því ef þeir ætla að bæta sér upp töfina, er nokkur hætta á að eftir nokkra km. fái þeir á sig blá ljós og misháa sekt eftir því hvað þeir ætluðu sér að ná töfinni hratt til baka.

 Já, það er vandlifað í henni veröld.
Flettingar í dag: 303
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2103
Gestir í gær: 503
Samtals flettingar: 417422
Samtals gestir: 37865
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 13:03:47
clockhere